Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Forstjóri Icelandair bjartsýnn fyrir veturinn

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ísland er ekki lengur á rauðum lista Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna sem ræður þarlendum ferðalöngum ekki lengur frá að ferðast til landsins. Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir það vera afar jákvæðar fréttir og að Ísland sé enn eftirsóknarverður áfangastaður.

„Allar svona breytingar munu hafa áhrif á ferðalög og bókanir til Íslands, þannig að þetta mun hafa jákvæð áhrif,“ segir Bogi í samtali við fréttastofu. 

Mánaðarlegar flutningstölur félagsins fyrir september sýna að yfir 212 þúsund tóku sér far því samanborið við tæplega 25.000 í sama mánuði í fyrra. Þar af eru 191 þúsund í millilandaflugi. Heildarfarþegafjöldi hefur nú aukist um 9% á milli ára á fyrstu níu mánuðum ársins.

„Þegar Delta-afbrigðið fór á talsverða ferð í Bandaríkjunum og við lentum á rauða listanum þá hægði talsvert á bókunum eins og sætanýtingin í september ber með sér. Það hefur gengið nokkuð til baka og það hefur styrkst aftur bókunarflæðið.“

Sætanýting í millilandaflugi var 62% samanborið við 45% í september í fyrra að því er fram kemur í tilkynningu frá Icelanair. Þar segir að óvissa vegna Delta afbrigðis kórónuveirunnar hafi mest áhrif haft á sætanýtinguna. 

Bogi var sjálfur á aðalfundi Samtaka flugfélaga í gær. Þar kom fram mikill áhugi á Íslandi sem áfangastað fyrir ferðamenn. Hann segir nýjustu tölur sýna betri stöðu heldur en var síðasta vetur. 

„Við vorum með 70% sætanýtingu í ágúst en hún fór aðeins niður í september út af Delta-afbrigðinu og útaf því að við lentum á þessum rauða lista í Bandaríkjunum.“

Bogi gerir ráð fyrir að sætanýting næstu mánuði verði meiri en var í september, jákvæð teikn séu á lofti en vetraráætlunin nemi tveimur þriðju af því sem var áður en heimsfaraldurinn skall á.