Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Forsetar Kína og Bandaríkjanna ætla að funda

Mynd með færslu
 Mynd: EPA-EFE - AP-EPA
Forsetar Bandaríkjanna og Kína hafa sammælst um að ræða saman fyrir árslok. Stjórnvöld beggja ríkja leggja áherslu á samskipti þótt ýmislegt hafi orðið til að auka spennu undanfarið.

Forsetarnir Joe Biden og Xi Jinping hafa þekkst um árabil en ekki þykir líklegt að Xi verði viðstaddur fund G20 ríkjanna í Róm. Þar hefði verið kjörið fyrir forsetana að skipuleggja fund sinn. 

Líklegast þykir að samtalið verði í gegnum fjarfundabúnað að því er fram kemur í máli háttsetts bandarísks embættismanns.

Skömmu áður en tilkynnt var um fund leiðtoganna hittust Jake Sullivan þjóðaröryggisráðgjafi Bidens og Yang Jiechi einn æðsti embættismaður Kína á sex klukkustunda löngum fundi í Zurich í Sviss. 

Það samtal er hluti aukinna samskipta ríkjanna en spenna hefur löngum ríkt þeirra á milli. Ógnandi tilburðir Kínverja í garð Taívan, mannréttindabrot gegn Úígúrum, ákvörðun Bandaríkjamanna að selja Áströlum tækni til kafbátasmíði og viðvarandi viðskiptadeilur hafa orðið til að auka á ósætti stórveldanna. 
  
Viðskiptaráðherrar ríkjanna hyggjast einnig ræða saman á næstunni. Xi og Biden hafa tvisvar ræðst saman í síma frá því sá síðarnefndi tók við embætti. Hið síðara var í síðasta mánuði og varði í 90 mínútur.