Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjórir af fimm sem duttu út hafa kært niðurstöðu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lenya Rún Taha Karim, frambjóðandi Pírata í nýliðnum alþingiskosningum, hefur skilað inn kæru til kjörbréfanefndar Alþingis vegna kosninganna í Norðvesturkjördæmi.

Lenya Rún er ein þeirra fimm frambjóðenda sem leit út fyrir að hefðu tryggt sér þingsæti áður en endurtalið var í kjördæminu. Nú hafa fjögur þeirra kært kosninguna. Lenya telur lýðræðislega réttast að kosið verði á ný í öllum kjördæmum. 

Hún segir efni kærunnar vera að endurtalning í Norðvesturkjördæmi verði ógild ef kjörbréfanefnd Alþingis ákveður að fara ekki í uppkosningu eða endurkosningu á landsvísu.

„Mér finnst endurkosning á landsvísu vera lýðræðislegasta lausnin úr þessum vanda. Uppkosning er ágæt en kjósendur í Norðvesturkjördæmi sætu einfaldlega ekki við sama borð og aðrir kjósendur í landinu, sem er ekki alveg lýðræðislegt.“

Næsti fundur undirbúningsnefndar á föstudag

Undirbúningskjörbréfanefnd Alþingis kom saman í dag og fékk meðal annars afhent minnisblað frá Landskjörstjórn um hennar athugun á kosningunum í Norðvesturkjördæmi.

Næsti fundur verður á föstudag og fleiri í næstu viku. Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður undirbúningskjörbréfanefndar, segir nefndina þurfa að reyna að komast að niðurstöðu um kjörbréf þingmanna eins hratt og auðið er, þótt tímaramminn sé ekki skýr.

Birgir sagði í samtali við Síðdegisútvarp Rásar tvö í dag að kærur væru enn að berast. 

„Þannig að við tökum ekki ákvörðun eða afstöðu til einstakra kærumála fyrr en við erum búin að fara yfir málavexti og atburðarásina í heild. Þannig að fundurinn á föstudaginn mun ekki fela í sér lyktir eins eða neins í þessu sambandi. Það er meiri vinna fram undan.“