Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Áfram tilefni til að fylgjast með frelsissviptingum

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Umboðsmaður Alþingis segir embættið áfram fylgjast grannt með aðbúnaði þeirra sem eru frelsissviptir á Íslandi. Hann vill ítarlegri skýringar frá Landspítalanum á því að sjúklingur hafi dvalið í 572 daga á öryggisgangi á Kleppi, meðal annars upplýsingar um aðbúnað sjúklingsins og aðdraganda vistunarinnar.

Hátt í fjögur ár á öryggisgangi

Fréttastofa fjallaði um málið í sumar, en maður, sem var sýknaður af alvarlegri líkamsárás og metinn verulega vanþroskaður andlega, hafði þá dvalið á öryggisgangi í næstum fjögur ár, í lengri tíma en skoðun umboðsmanns nær yfir.

Umboðsmaður og starfsfólk hans heimsótti réttar- og öryggisgeðdeild á Kleppi í júní og fljótlega eftir það var óskað eftir upplýsingum um vistun þessa sjúklings á öryggisganginum. Umboðsmaður vill skýrari svör frá spítalanum en bárust í sumar.

Skoða enn aðbúnað frelsissviptra

Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, segir að heimsóknin í júní sé hluti af ítarlegu eftirliti umboðsmanns á frelsissviptingu og að áfram sé tilefni til að fylgjast með málaflokknum. 

„Þetta er í raun og veru eftirfylgni af þeirri heimsókn. Og auðvitað til marks um það að umboðsmaður tekur geðheilbrigðismál mjög alvarlega. Þetta ætti allt saman að sýna að það er af hálfu umboðsmanns áfram verið að vinna í að skoða aðbúnað þeirra sem eru frelsissviptir,“ segir Skúli. 

Þarf aðhald í málaflokknum

Í svörum Landspítala frá því í sumar kemur fram að ástæða vistunar á öryggisganginum hafi verið ofbeldi. Umboðsmaður óskar eftir upplýsingum um aðdraganda vistunarinnar, aðbúnað sjúklingsins og meðferðaráætlun, hverjir tóku ákvörðun um vistunina og hvernig upplýsingagjöf um réttindi sjúklingsins var háttað.

Skúli segir ljóst að skilningur innan geðheilbrigðiskerfisins á regluverki í kringum þvinganir hafi aukist. Áfram þurfi þó að veita aðhald og hann telji tilefni til að styrkja eftirlitið frekar. 

„Stofnun eins og Landspítalinn hefur verið að vinna í því að bæta sína ferla og gera það sem þau geta gert innanhúss, en að okkar mati er ástæða til að halda áfram að skoða þessi mál og veita nauðsynlegt aðhald,“ segir Skúli.