Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Sjálfum finnst mér svona djúpt í árinni tekið“

05.10.2021 - 17:10
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan - RÚV
Fræðslustjóri Akureyrarbæjar segir rakningarteymið ganga lengra á Akureyri en reglur um sóttkví segja til um. Um 80 eru nú í einangrun og tæplega þúsund manns í sóttkví á Akureyri, að stærstum hluta börn á grunnskólaaldri.

Reglum um sóttkví breytt í ágúst

Í lok ágúst endurskoðaði sóttvarnalæknir leiðbeiningar um sóttkví á öllum skólastigum. Þar var viðmiðum um sóttkví breytt og þau höfð eftir því hvort samvera við smitaðan einstakling hefði verið mikil eða ekki. Hafi samskipti ekki verið mikil er ekki gerð krafa um sóttkví heldur smitgát og getur viðkomandi þá mætt í skólann. 

Sjá einnig: Breyttar reglur um sóttkví í skólum

Karl Frímannsson sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar sagði í kvöldfréttum í gær að ljóst væri að rakningarteymið færi ekki eftir þessu heldur gengi lengra. „Miðað við gildandi sóttvarnarreglur þá er væntanlega búið að herða reglurnar og það er búið að ég held senda miklu fleiri í sóttkví en reglurnar kveða á um,“ segir Karl.   

Af hverju heldurðu að það sé?

„Já, ég held að þetta sé bara af fenginni reynslu þannig að það er verið að reyna að ná utan um þetta fyrst og fremst en ég held við séum nú bara komin að því að lifa með þessum sjúkdómi og við þurfum bara að umgangast með þeim hætti. Þá undirstrika ég að við þurfum að sinna sóttvörnum og annað slíkt en sjálfum finnst mér svona djúpt í árinni tekið.“

„Útbreiðslan var orðin mikil“

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, segir í samtali við fréttastofu að reglum um sóttkví hafi ekki verið breytt. Hvert og eitt tilfelli sé alltaf metið og í tilfelli hópsýkingarinnar á Akureyri hafi útbreiðslan verið orðin það mikil að ákveðið hafi verið að stíga fast til jarðar. „Ástæðan fyrir fjöldanum sem fór í sóttkví var einkennasaga margra, fjöldi bekkja og skóla sem voru undir. Útbreiðslan var orðin mikil. Við fögnum umræðunni og gott að öll sjónarmið komi fram því eins og alltaf í þessum heimsfaraldri þá er markmiðið að slíta smitkeðjuna og sem betur fer finnum við að lang flestir eru sammála um að best var að taka þetta föstum tökum,“ segir Hjördís. 

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir - RÚV
Hjördís Guðmundsdóttir