Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Poppstjörnur og fótboltamenn eru í Pandora skjölunum

05.10.2021 - 00:34
Mynd með færslu
 Mynd:  - Youtube
Nafn kólumbísku söngkonunnar Shakiru kemur fyrir í Pandora skjölunum, en það á einnig við um margar aðrar stjörnur. Pandora skjölin koma frá fjórtán aflandsþjónustufyrirtækjum og afhjúpa meðal annars fjármál og vafasöm milljarðaviðskipti fyrrverandi eða núverandi þjóðarleiðtoga og kaupsýslumanna.

Það eu alþjóðleg samtök rannsóknarblaðamanna sem stýra úrvinnslunni og skipulegga birtingu upp úr skjölunum. Nafn Shakiru kemur fyrir vegna reikninga sem hún á í skattaskjóli á Bresku Jómfrúreyjum.

Samkvæmt upplýsingum lögmanns hennar hefur yfirvöldum verið gerð grein fyrir þeim fjármunum sem þar liggja. Shakira hefur sætt skattrannsókn á Spáni þar sem fullyrt er að hún hafi komið sér hjá að greiða skatta að því sem nemur um tveimur milljörðum íslenskra króna.

Nöfn ofurfyrirsætunnar Claudiu Schiffer, spænska söngvarans Julio Iglesias, Ringo Starr fyrrverandi trommara Bítlanna og popparans Eltons John er einnig að finna í skjölunum.

Það þarf þó ekki að þýða að þetta fólk hafi ekki greitt skatta af tekjum sínum en fyrirtæki í þeirra nafni hafa verið sett upp í skattskjólum að því er fram kemur á vef danska ríkisútvarpsins. Aflandsfélög eru ekki ólögleg en máli skiptir hvernig þau eru notuð.

Spænska fótboltastjarnan og þjálfarinn Josep Guardiola á peninga á reikningum í örríkinu Andorra auk þess sem nöfn allmargra argentínskra knattspyrnamanna er að finna í skjölunum.