Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mælitækin á Seyðisfirði námu fleka á hreyfingu

05.10.2021 - 13:12
Mynd úr mælitækjum Veðurstofunnar. Innan hvíta hringsins er flekinn sem hefur hreyfst. - Mynd: vedur.is / vedur.is
Hættustig vegna skriðuhættu er enn í gildi á Seyðisfirði eftir rigningar síðustu daga. Mælitæki Veðurstofunnar, sem vakta hlíðina ofan byggðarinnar, sýna að stór fleki í jaðri skriðusársins við Búðará er kominn á hreyfingu og gæti fallið í Búðará sem er í innri hluta farvegar stóru skriðunnar sem féll fyrr í vetur.

Níu hús voru rýmd i gær og stendur rýmingin fram yfir helgi. Spáð er talsverðri úrkomu á þessum slóðum þegar nær dregur helginni. Ekki er útlit fyrir að úrkoman standi lengi. 

Fulltrúar Veðurstofu Íslands og Almannavarna funda um stöðuna nú eftir hádegi. Rúnar Snær Reynisson, fréttamaður, er á Seyðisfirði og rætt var við hann í hádegisfréttum. Hann hefur í morgun rætt við íbúa og þeim er mjög brugðið yfir stöðunni. Fólk finni fyrir óöryggi, en að það sé bót í máli að eftir stóru skriðuna sem féll í desember hafi verið sett upp nákvæm mælitæki sem vakta hreyfingar í hlíðunum.  

Stóru skriðurnar féllu í firðinum sunnanverðum niður á Búðareyri og hinu megin í firðinum var sett upp stöð sem að skýtur ljósgeislum yfir fjörðinn og í fjölda spegla sem eru víðs vegar um hlíðina. Fram kom í hádegisfréttum að búnaðurinn virkar ekki í mikilli rigningu eða vondum veðrum. Því var einnig settur upp radar á Vestdalsháls sem mælir einnig hreyfingar. 

Enn mælist hreyfing á flekanum

Bæði þessi mælitæki námu að það voru hreyfingar í fleka sem er tvö til þrjú þúsund fermetrar að stærð. Hann hefur færst um tvo sentimetra síðan um helgina og gæti fallið í Búðará og því var gripið til rýmingar í gær. Almannavarnir sendu frá sér tilkynningu á hádegi þar sem segir að enn mælist hreyfing á flekanum.

Geta fengið hjálp við að vitja húsa sinna

Enginn gisti í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Herðubreið í nótt, heldur fékk fólk gistingu hjá vinum og kunningjum. Fram kemur í tilkynningu Almannavarna að fulltrúar Rauða krossins verði í Herðubreið í dag. Þar verður opið frá 14 til 17. Íbúar í húsum á rýmingarsvæðum eru sérstaklega hvattir til að mæta. Þeir geta þá fengið aðstoð við að fara og huga að húsum sínum hafi þeir hug á því. 

Innan hvíta hringsins hér á mynd Veðurstofu Íslands fyrir neðan má sjá svæðið sem er á hreyfingu.