Hver fetar í fótspor Daða og Hatara?

Mynd: Samsett / RÚV/EBU

Hver fetar í fótspor Daða og Hatara?

05.10.2021 - 15:57

Höfundar

Frestur til að senda inn lag í Söngvakeppnina rennur út á miðnætti á morgun 6. október. Þá mun valnefnd fara yfir innsend lög og að lokum velur framkvæmdastjórn tíu þeirra til þátttöku í ár. Það er til mikils að vinna fyrir sigurvegara keppninnar auk þess að koma fram fyrir hönd Íslands í Eurovision í maí. Bæði Hatari og Daði Freyr öðluðust til dæmis heimsfrægð í gegnum keppnina.

Nú fer hver að verða síðastur til að senda inn framlag í Söngvakeppnina, því fresturinn rennur út á miðnætti á morgun miðvikudaginn 6. október. Rúnar Freyr Gíslason verkefnastjóri og fjölmiðlafulltrúi segir að þegar hafi tugir laga borist, en aðstandendur keppninnar eiga von á að sprenging verði í innsendum framlögum rétt áður en fresturinn rennur út. „Síðasta klukkutímann kemur svona 80% af lögunum,“ segir hann í samtali við Huldu Geirsdóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2. „Listamenn, ég þekki þá ágætlega sjálfur, þeir eru oft á síðasta snúningi og sumir með ákvarðanatökufærni. Svo er verið að nostra við eitthvað á síðustu stundu.“

Hægt er að senda inn framlag hér á heimasíðu Söngvakeppninnar.

Lögin eru tekin upp og send á ólíkan hátt. Sumir taka upp á símann með kassagítar inni í stofu, það má jafnvel heyra í börnum að leik í bakgrunni. Aðrir taka upp í stúdíó og senda fullkláruð demó, og svo allt þar á milli. Öllum framlögum er tekið fagnandi samkvæmt Rúnari. „Eitt það fallega við Söngvakeppnina er að það læðast alltaf inn einhverjir sem hafa aldrei sést áður, en duttu bara niður á góða laglínu og komust inn í keppnina. Svo þetta er grasrótarstarf líka,“ segir hann. Það eru þó alltaf einhver þekkt nöfn inn á milli.

Vonast er eftir fjölbreytni í lagasmíðum og Rúnar segir að það sé pláss fyrir alls konar ólíka tónlist í keppninni. „Sérstaklega síðustu ár höfum við hvatt alla til að taka þátt. Við tökum vel á móti öllum tegundum tónlistar, klassík, rappi og þungarokki og öllu,“ segir Rúnar.

Og það er til mikils að vinna ef framlagið er valið til þátttöku í stóru keppninni. Það þekkja Daði Freyr og Gagnamagnið líklega best en lög þeirra, Think about things og Ten years eru samtals með um hundrað og tuttugu milljónir spilana á streymisveitunni Spotify. Eins er Hatari, sem tók eftirminnilega þátt 2019, með um tíu milljón spilana. „Þetta er eitthvað sem íslenskir tónlistarmenn sjá bara ekki mjög oft. Þetta er tækifæri, stór gluggi inn í Evrópu og heiminn allan.“

Flest lögin sem koma til með að taka þátt verða innsend, en einnig munu þrjú til fimm lög koma frá lagahöfundum sem er sérstaklega boðið að taka þátt. Á endanum verða tíu lög valin til að taka þátt og að vanda eru keppnirnar þrjár, tvær undankeppnir og svo úrslit þar sem framlag Íslands verður valið. „Við erum með háleit markmið núna því það var engin undankeppni í fyrra og nú snýr Söngvakeppnin aftur. Það er tilhlökkunarefni heldur betur.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Nú er hægt að senda lög í Söngvakeppnina 2022