Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fasteignamarkaður á flugi en þó ekki bóla

Mynd: Sunna Valgerðardóttir / RÚV
Fasteignamarkaðurin hefur verið í mikilli uppsveiflu undanfarin misseri og verðhækkanir fyrst og fremst knúnar af eftirspurn eftir sérbýli. Það er nokkuð sem fór að bera á eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á segir Una Jónsdóttir hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans. Hún telur að dragi úr hækkunum á næstunni þó að hún búist ekki við verðfalli.

Seðlabanki Íslands setti nýlega reglur um hámark greiðslubyrðar af fasteignalánum miðað við tekjur lántaka. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur sagt það gert til að tryggja jarðsamband fasteignamarkaðarins og setja á hann bönd. Tryggja þurfi að lánveitendur fari ekki í samkeppni sín á milli um hver geti lánað meira, líkt og gerðist fyrir hrun.  

Skuldsetning almennt ekki yfir þessum mörkum

Una Jónsdóttir hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans segir alltaf gott að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða en telur ástandið ekki vera orðið eins og það var fyrir hrun. Raunin sé sú að mjög fáir taki lán og séu með greiðslubyrði yfir 35% mörkum nú. Reglurnar sem Seðlabankinn setti hafi því ekki endilega áhrif á marga og það séu ekki merki um almenna ofskuldsetningu. Viðmið lánastofnana til að fólk fái greiðslumat hafa verið á svipuðu róli og mörkin sem Seðlabankinn hefur nú sett.

Forðast að tala um fasteignabólu

Una segir að vissulega hafi hækkanir verið mjög miklar og allar líkur á að það hægi á taktinum en það þýðir að hennar mati ekki að verð lækki. Líkur séu á að hækkanir verið hóflegri milli mánaða.

Innilokun í pestinni eykur eftirspurn eftir sérbýli

Kórónuveirufaraldurinn hafði sín áhrif á fasteignamarkaðinn og kauphegðun. Vextir lækkuðu á sama tíma og fólk sat fast í samkomutakmörkunum og þá leitaði fjármagn mjög inn á fasteignamarkaðinn segir Una. Þetta hafi bara verið mjög góður tími til að kaupa. 

Margir voru búnir að sitja heima með allri fjölskyldunni, búnir að setja upp heimaskrifstofu og þá sáum við að eftirspurnin varð meiri eftir sérbýli. Og í rauninni verðhækkanir sem við sjáum núna eru drifnar áfram af hækkunum á sérbýli... áður voru hækkanir mjög drifnar áfram af fjölbýli.

Mikið byggt hér miðað við nágrannalöndin

Íbúðaruppbygging hefur verið mjög sveiflukennd hér á landi. En að jafnaði erum við að hefja byggingu á fleiri íbúðum miðað við mannfjölda heldur en nágrannaþjóðir okkar til dæmis segir Una þó að eitthvað dragist saman.

Eðli þessa markaðar er þannig að eftirspurnin getur tekið við sér á einni nóttu, en það tekur tíma að byggja íbúðir. Við viljum ekki fara af stað í of mörg verkefni ef eftirspurnin skyldi dragast saman. Nú er ég ekki að segja að ég telji líkur á að það gerist en við þurfum bara einhvern veginn að gera áætlanir langt fram í tímann og byggja bara jafnt og þétt.

Stór hluti útistandandi lána næmur fyrir vaxtabreytingum

Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti um 0,25 prósentustig tvívegis á þessu ári og greiningardeildir bankanna spá þriðju hækkuninni nú í október, sem enn gæti haft áhrif á fasteignalánin.   

Núna búum við nýjan veruleika á íslenskum lánamarkaði, þar sem að helmingur af útistandandi lánum er óverðtryggður.

Það, segir Una, gerðist í faraldrinum þegar vextir lækkuðu og allt í einu varð hagstæðara að taka óverðtryggð lán en þau eru næm fyrir vaxtabreytingum. Nú er um þriðjungur allra útistandandi lána óverðtryggður á breytilegum vöxtum. Viðbúið sé því að greiðslubyrði þeirra sem eru með slík lán þyngist. Það gæti haft áhrif á bæði eftirspurn eftir fasteignum og almennri neysluvöru. 

 

 

 

Markaðurinn leitar í jafnvægi

Una bendir á að Seðlabankinn hafi áhyggjur af þróun fasteignaverðs, en hafi líka tæki og tól til að koma á hann böndum. Því séu líkur á að markaðurinn jafni sig. Staðan verði líka betri eftir því sem menn komast út úr covid-ástandinu. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV