Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Telja að það versta sé yfirstaðið

Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan
Veðrið fyrir norðan hefur batnað og staðan er betri en í gær, að sögn Hermanns Karlssonar, aðalvarðstjóra í aðgerðarstjórn hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra. Hann telur að það versta sé yfirstaðið.

Mikil úrkoma var á norðanverðu landinu um helgina, sums staðar sú mesta í mannaminnum. Aurskriður féllu og tólf bæir í Kinn og Útkinn í Suður-Þingeyjarsýslu hafa verið rýmdir. Björgunarsveitir og slökkvilið stóðu í ströngu um helgina, bæði í Suður-Þingeyjarsýslu og við að dæla vatni á Ólafsfirði. Hermann Karlsson, aðalvarðstjóri í aðgerðastjórn, sagði í morgun að björgunarsveitir hafi verið að störfum fram eftir kvöldi í gær en að rólegt hafi verið í nótt. Mikið vatn er enn í fjallshlíðum og fjölmargar aurskriður hafa fallið á stóru svæði. 

Gul veðurviðvörun vegna mikillar rigningar verður í gildi til hádegis á Ströndum og Norðurlandi. „Það hefur nú svo sem lítið breyst frá því í gær og litlar upplýsingar nema það, að við vorum ekki með verkefni í nótt. Það gekk bara ágætlega fyrir sig. Menn voru samt að störfum alveg langt fram á kvöld í gærkvöld að vinna við rýmingar sem var farið í eftir kvöldmat í gærkvöld í Kinn og að sama skapi voru dæluverkefni á Ólafsfirði. Slökkvilið og björgunarsveitir voru þar að störfum fram eftir kvöldi en það var allt komið, held ég, fyrir nóttina,“ segir Hermann.

Staðan betri en um helgina

Hermann segir að staðan sé sannarlega betri núna en um helgina. „En það var samt spáð meiri úrkomu heldur en varð kannski búið að sjá fyrir þannig að þess vegna var sett aftur gul viðvörun vegna úrkomu en það skapaði ekki aukin verkefni að því er ég best veit,“ segir hann. Nú sé bjartara fram undan. „Það er minnkandi úrkoma og kólnandi aðeins líka, þannig að við teljum að við séum komnir yfir það versta í þessu núna, við teljum að við séum komnir á þann stað.“