Heiðarbýli horfins samfélags í Jökuldalsheiði

Mynd: Magnús Atli Magússon / RÚV/Landinn

Heiðarbýli horfins samfélags í Jökuldalsheiði

04.10.2021 - 09:32

Höfundar

„Upphafið var að það var ekkert jarðnæði að fá niður í byggð og fólk fór að leita upp til heiða,“ segir Hjördís Hilmarsdóttir, sem hefur, ásamt öðrum, unnið að því að setja heiðarbýlin í Jökulsdalheiði aftur á kortið. 

Landinn slóst í för með Hjördísi í göngu um nokkur heiðarbýlanna. Þau voru byggð um miðja 19. öld og flest í meira en 500 metra hæð. Fyrsta heiðarbýlið var byggt 1841 og það síðasta 1862 og byggðust mörg á gömlum seljum. Þegar mest var er talið að um 120 manns hafi búið í Jökuldalsheiði. 

Fólk vildi standa á eigin fótum

Þetta snérist um að eiga sitt? „Já, og þurfa ekki að vera undir öðrum kominn. Þetta er svona sjálfstæðisbarátta,“ segir Hjördís. „En það var svona rómantík hérna og ekkert skrítið [...] alveg yndislegt að vera hérna. - En svo kom veturinn og þá varð harðbýlt og erfitt,“ segir Hjördís. 

Gos úr Öskju jók á harðindin

Og það jók á harðindin á heiðinni þegar Askja gaus árið 1875. Í kjölfar þess féll gríðarlega mikil aska á stóru svæði á Austurlandi. „Það fór allt á verri veg eftir að Askja gaus 1875 þó svo að fólk byggi hér í mörg ár eftir það þá voru sum býli sem byggðust ekki aftur og það jókst svo uppblástur. En svo var þetta bara eins og í sveitum að þegar það fer að fækka og fólk fór að leita til byggða og það fóru að myndast þorp og bæir, þá fóru bara hver á fætur öðrum." 

Setja samfélagið í Jökuldalsheiði aftur á kortið

Þótt fólk hafi smám saman horfið á brott úr heiðinni hefur Ferðafélag Fljótsdalshérað, sveitarfélagið Fljótsdalshérað og Kaupvangur menningar og fræðasetur Vopnfirðinga unnið að því að setja upp vegvísa, útbúa bæklinga og gönguleik og svo eru leiðirnar að heiðarbýlunum í wappinu, göngu-appi. Þá eru upplýsingahólkar í heiðarbýlunum sjálfum.

Fjallað var um heiðarbýlin í Jökuldalsheiði í Landanum. Hér má horfa á þáttinn í heild sinni.