Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gular veðurviðvaranir vegna úrkomu til hádegis

04.10.2021 - 06:54
Mynd með færslu
 Mynd: vedur.is - Veðurstofa Íslands
Gular veðurviðvaranir vegna mikillar rigningar á Ströndum og Norðurlandi vestra og á Norðurlandi eystra verða í gildi til hádegis. Mikið hefur rignt við Siglufjörð og er varað við því á vef Veðurstofu Íslands að ár og vatnsföll geti vaxið mikið og að auknar líkur séu á grjót- og aurskriðum.

Mikið hefur einnig rignt í Suður-Þingeyjarsýslu, einkum í Kinn og Útkinn og á Ólafsfirði og rignir enn. Þar hafa tólf bæir verið rýmdir og björgunarsveitir aðstoðuðu bændur í gær við að komast til mjalta. Hættustig almannavarna og rýmingar verða í gildi fram að næsta stöðufundi, sem áætlað er að halda um hádegi. Veginum um Kinn hefur verið lokað frá Ljósvetningabúð og til brúarinnar við Skjálfandafljót vegna hættu á skriðuföllum. 

Spáð er norðlægri átt í dag, 10 til 18 metrum á sekúndu, og rigningu með köflum fyrir norðan. Þurrt að kalla sunnan heiða. Á morgun er spáð norðlægri átt, 5 til 10 metrum á sekúndu. Skýjað með köflum en dálítil él eða slydduél á Norðausturlandi. Austlægari átt sunnan til, skýjað að mestu og sums staðar, væta allra syðst. Hiti 1 til 12 stig, hlýjast um landið suðaustanvert. Í framhaldi verða suðaustlægar áttir ríkjandi með rigningu í flestum
landshlutum, jafnvel slyddu eða snjókomu fyrir norðan.