Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gera ráð fyrir nokkrum vikum í stjórnarmyndunarviðræður

04.10.2021 - 12:20
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir eðlilegt að gott gengi flokksins í kosningunum endurspeglist í stjórnarmyndunarviðræðunum. Katrín Jakobsdóttir segir að stjórnarmyndunarviðræður ríkisstjórnarflokkanna þriggja gætu tekið nokkrar vikur.

Formenn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hittust í ráðherrabústaðnum í morgun og héldu áfram stjórnarmyndunarviðræðum. Þau segja að góður gangur sé í viðræðunum. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri mætti á fund þeirra klukkan tíu í morgun, enda efnahagsmálin efst á baugi í dag. 

„Við vorum á föstudaginn að fara yfir stöðu ríkisfjármála með helstu sérfræðingum á því sviði og í dag ætlum við að fara yfir stöðu efnahagsmála,“ sagði Katrín Jakobsdóttir þegar við náðum tali af henni fyrir fundinn. Hún segir að viðræðurnar geti tekið nokkrar vikur. „Af því að þarf auðvitað bæði að ræða þessar stóru línur og svo þegar þær liggja fyrir þá þarf að ráðast í ritun stjórnarsáttmála og ef svona ríkisstjórnarsamstarf á að vera farsælt eins og það hefur verið þá skiptir öllu máli að vanda til verka og gefa sér tíma þegar lagt er af stað, þannig að við gerum ráð fyrir einhverjum vikum í þetta ferli allt saman,“ segir Katrín. Viðtal við Katrínu má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Gott gengi Framsóknar hljóti að endurspeglast í viðræðunum

Hjá starfandi ríkisstjórn hefur Sjálfstæðisflokkur fimm ráðherraembætti, Vinstri græn þrjú og Framsókn þrjú. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að skipting ráðuneyta verði rædd á síðari stigum viðræðanna. „Við erum fyrst og fremst að tala hérna saman um málefnin þessa dagana, átta okkur á stöðunni inn í næstu fjögur ár og hvernig við gætum komið þeim áherslum sem best fram, með kannski breyttri verkaskiptingu eða eitthvað slíkt, en það hafa engar ákvarðanir verið teknar, við erum bara í samtali,“ segir Sigurður Ingi. 

Framsóknarflokkur bætti verulega við fylgi flokksins í kosningunum frá síðasta kjörtímabili. Gerir flokkurinn kröfu um fleiri embætti eða áhrifameiri embætti í ljósi þessa? „Það er alveg rétt, Framsókn var með stórsigur í þessum kosningum, og augljóst að kjósendum landsins leist vel á þær áherslur og þau verk sem við höfum staðið fyrir og það hlýtur að endurspeglast í samtölunum hérna milli okkar þriggja“ Segir Sigurður Ingi Jóhannsson.

Fréttastofa ræddi einnig við Bjarna Benediktsson fyrir fundinn í morgun. Viðtal við Bjarna má sjá hér fyrir neðan. 

 

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV