Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Alræmdur bílasali með milljarða tengsl við Jyske Bank

04.10.2021 - 02:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Genaro Peña, alræmdur bílasali frá Suður-Ameríkuríkinu Paragvæ á nokkra reikninga í danska bankanum Jyske Bank. Auður hans er gríðarlegur, svo mikill að sérfræðingar eru efins um að bílaviðskipti ein standi undir honum. Bankinn hefði átt að kanna uppruna fjármuna mannsins að þeirra mati.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í Pandora skjölunum sem afhjúpa meðal annars fjármál og vafasöm milljarðaviðskipti fyrrverandi eða núverandi þjóðarleiðtoga og kaupsýslumanna.

Danska ríkisútvarpið greinir frá viðskiptum Peña við Jyske Bank en viðskipti hans við bankann námu mest um 900 milljónum danskra króna. Það er jafngildi ríflega 18 milljarða íslenskra króna.

Sérfræðingar velta nú fyrir sér hvort stjórnendur bankans hafi farið að lögum og kannað uppruna þessa mikla auðs viðskiptavinarins. Mat lögmannsins Jakob Dedenroth hjá Fraud React, fyrirtæki sem berst gegn efnahagsbrotum, er að útilokað sé að auðurinn stafi frá bílaviðskiptum einum.

Þegar árið 2005 hafi Peña átt sem nemur 70 milljónum Bandaríkjadala sem jafngildi 0,65 prósentum af vergri landsframleiðslu Paragvæ. Það ár fékk Peña ráðgjöf frá starfsmanni einkaþjónustu bankans um hvernig best væri að ávaxta og varðveita auðinn.

Pandora skjölin sýna að fjármunir Peña voru varðveittir í skattaskjóli á Bresku Jómfrúreyjum og tvö fyrirtækja hans voru skráð þar. Þau áttu svo reikninga í Jyske Bank.

Þetta segja sérfræðingar að hefði átt að kveikja spurningar í bankanum. Á sama tíma hafi Paragvæ verið eitt spilltasta ríki heims að mati Transparancy International sem enn frekar hefði átt að hvetja danska bankann til að hafa varann á gagnvart Peña.

Bankanum beri afar rík skylda til að tryggja að ekkert vafasamt sé að baki því hvernig peninga viðskiptavina hans er aflað.