Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vogar skjálfa en Grindavík ekki

Jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga heldur áfram og frá hádegi urðu tveir skjálftar sem fundust greinilega á höfuðborgarsvæðinu. Í Vogum á Vatnsleysuströnd finna íbúar vel fyrir skjálftunum en Grindvíkingar síður, þótt Grindavík sé nær upptökum þeirra.

Vel á sjötta hundrað jarðskjálftar hefur mælst við Keili í dag, sá stærsti af stærðinni 3,5 í hádeginu. Síðdegis mældist svo skjálfti upp á 3,4 og fundust þeir báðir á höfuðborgarsvæðinu. Á þeim sex dögum sem hrinan hefur staðið yfir hafa vel yfir fimm þúsund skjálftar mælst, þar af ellefu yfir þremur. Heldur færri skjálftar hafa mælst í dag en síðustu daga. Enn er ekki vitað hvort skjálftahrinan tengist jarðskorpuhreyfingum eða kvikuinnskotum.

Í jarðskjálftahrinunni í aðdraganda gossins í Geldingadölum titraði allt og skalf í Grindavík svo dögum skipti og jafnvel oft á dag. Bæjarbúar voru orðnir langþreyttir á tíðum skjálftum sem hættu svo alveg þegar eldgos hófst. En þótt upptök skjálftanna séu aðeins 10 kílómetra frá bænum verða bæjarbúar lítið varir við þá.

„Við erum tiltölulega lítið að verða vör við þetta hérna í Grindavík, ólíkt því sem varð þegar mest gekk á á sínum tíma þegar að skjálftarnir voru mjög tíðir og stórir enda upptökin miklu nær okkur þá en nú er,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.

Dusta rykið af rýmingaráætlunum

Vogar eru hins vegar 12 kílómetra frá upptökum skjálftanna og þeir fara alls ekki fram hjá bæjarbúum. „Hrinan finnst alveg greinilega hérna og sérstaklega þessir stóru skjálftar. Og einmitt sá sem kom í gær, þá heyrði fólk svona hljóð áður og svo kom skjálftinn,“ segir Áshildur Linnet, bæjarfulltrúi í Vogum.

Bæði sveitarfélög eru mjög vel sett þegar kemur að viðbrögðum við hamförum enda fjölmargar áætlanir gerðar í síðustu hrinu. „Hér til dæmis í Vogum er búið að gera rýmingaráætlun og annað þannig að ég held að fólk sé vel undirbúið og það auðvitað róar fólk líka.“

Sakna ekki óþægilega nágrannans

Ekkert hefur gosið í Geldingadölum síðan 18. september. Þótt Grindvíkingar séu orðnir vanir að hafa eldgosið í bakgarðinum þá segir bæjarstjórinn að þeir séu ekki farnir að sakna eldsumbrotanna.  „Nei, ég myndi nú ekki segja það endilega. Ég held að margir íbúar Grindavíkur væru í sjálfu sér fegnir því að losna við þetta alfarið. En þetta er meinlítið eins og það hefur verið þarna núna og við bara horfum á þetta sem óþægilegan nágranna.“