Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Talsmaður Talibana kveðst fordæma allt ofbeldi

epa09492676 A Taliban patrol in Kabul, Afghanistan, 28 September 2021. Lack of international recognition remains a pressing problem for the Taliban, who are not only geopolitically isolated but are also facing a major cash crunch after international financing institutions froze most of the funds Afghanistan has long relied upon for economic stability.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Zabiullah Mujahid talsmaður Talibana segir að það séu skýr skilaboð til liðsmanna samtakanna að þeir skuli ekki láta hendur skipta í samskiptum við fólk. 

Frá því að Talibanar hrifsuðu til sín völdin í Afganistan undir lok ágúst hafa þeir lokað stúlknaskólum, beitt konur ofbeldi þegar þær hafa mótmælt á götum úti og þeir hafa pyntað blaðamenn.

Mujahid var í viðtali við fréttamann norska ríkisútvarpsins og segir að ofbeldið hefði aldrei átt að verða. 

Reynsluleysi kennt um

Mujahid kennir reynsluleysi liðsmanna Talibana um framferði þeirra, þeir þekki ekkert annað en stríðsátök. Mujahid segir nokkurn tíma þurfa að líða uns lögreglumenn taki við og geti þá glímt við atburðarás af ýmsu tagi án þess að grípa til ofbeldis. 

Hann segist fordæma ofbeldi gegn konum en kennir þó þeim konum sem mótmæltu í höfuðborginni Kabúl um hvernig fór.

Mujahid fullyrðir að þær hafi ögrað liðsmönnum Talibana frammi fyrir heimspressunni til dæmis með því að kalla þá smánarlega svikahrappa. Við það hafi komið til átaka.

Hann fullyrðir að þeir liðsmenn sem beitt hafi ofbeldi hafi verið handteknir, sviptir vopnum sínum og að rannsókn standi yfir á framferði þeirra. 

Segir karlmenn ekki eiga að kenna stúlkum

Hvað varðar lokun stúlknaskóla og og kröfu Talibana um að stúlkur á aldrinum 13 til 18 ára haldi sig heima segir Mujahid að laga þurfi kennslu þeirra að lögmálum Islam.

Það merki meðal annars að kennarar þeirra skuli vera kvenkyns, það sé ekki við hæfi að karlmenn kenni stúlkum á kynþroskaaldri.

Hörgull er þó á kvenkyns kennurum í landinu en Mujahid segir lausnina geta verið þá að margir bekkir verði sameinaðir eða að eldri kennurum karlkyns verði veitt undanþága til að kenna stúlkum. Allt þurfi þá að byggja á reglum trúarinnar.

Engir peningar til að greiða laun

Margir leiðtogar Talibana telja stað konunnar vera heimilið, þær eigi ekki erindi á vinnustöðum. Þó hafa nýir valdhafar í Afganistan heitið því að konum verði kleift að stunda störf sín áfram en raunveruleikinn er sá að það á nær eingöngu við konur í heilbrigðisstéttum.

Mujahid segir skýringuna vera þá að engir peningar séu til og því útilokað að greiða nokkrum laun. Það eigi jafnt við um konur og karla en hann segir sjóði ríkisins fasta í erlendum bönkum.

Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn frystu fjármuni afganska ríkisins eftir valdatöku Talibana. Því hafa hundruð þúsunda opinberra starfsmanna verið án launa um margra vikna skeið.