Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stjórnarmyndunarviðræður halda áfram í Þýskalandi í dag

epa08922255 A view shows the Brandenburg gate, one of Berlin's popular sightseeing spots, in Berlin, Germany, 06 January 2021. On 05 January, the German federal government and states agreed to extend coronavirus lockdown until 31 January including restriction of travel for residents in Covid-19 hotspots to a 15 km radius.  EPA-EFE/HAYOUNG JEON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnarmyndunartilraunir standa enn yfir í Þýskalandi. Forystumenn Jafnaðarmannaflokksins funda með fulltrúum Frjálslyndra demókrata um stjórnarmyndun síðdegis í dag og hitta svo fulltrúa græningja í kjölfarið.

Kristilegir demókratar, flokkur Angelu Merkel fráfarandi kanslara, ræða við Frjálslynda í kvöld og græningja næstkomandi þriðjudag. 

Jafnaðarmannaflokkurinn hlaut 25,7% atkvæða í kosningunum síðastliðinn sunnudag og bætti við sig frá síðustu kosningum en Kristilegir demókratar fengu 24,1% nærri níu prósentustigum minna en síðast.

Samsetning næstu ríkisstjórnar Þýskalands veltur á því hvor flokkanna nær að fá græningja og Frjálslynda til fylgilags við sig. Armin Laschet núverandi formaður Kristilegra hefur heitið að gera hvað hann getur að halda flokknum við völd en Angela Merkel hefur verið kanslari í sextán ár. 

Kosningasigur Olafs Scholz og Jafnaðarmannaflokksins tryggir honum þó lykilstöðu við myndun ríkisstjórnar.

Næstum 60% kjósenda í Þýskalandi eru samkvæmt niðurstöðum könnunar ZDF-sjónvarpsstöðvarinnar fylgjandi myndun stjórnar Jafnaðarmanna, græningja  og Frjálslyndra sem í daglegu tali eru kallaðir umferðaljósið vegna einkennislita flokkanna.