Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stílfærð Stella snýr aftur á sjónvarpsskjáinn

Mynd: Saga film / Stella Blómkvist

Stílfærð Stella snýr aftur á sjónvarpsskjáinn

03.10.2021 - 10:00

Höfundar

Önnur þáttaröðin um Stellu Blómkvist er komin út í Sjónvarpi Símans. Heiða Reed fer sem fyrr með hlutverk Stellu en hún hefur líka verið að gera það gott í þáttunum FBI International. 

Stella Blómkvist byggir á bókum eftir samnefndan hulduhöfund. Saga film framleiðir þættina en Óskar Axelsson og Þóra Hilmarsdóttir leikstýra nýju þáttaröðinni. „Þessi sería er svipuð og sú fyrsta, nema aðeins stærri, meiri og ýktari,“ segir Heiða Reed sem fer með hlutverk Stellu. „Við erum með frábæra gestaleikara í öllum þáttum. Það var gaman að finna fyrir því að af því að fyrsta sería gekk vel voru svo margir frábærir leikarar til í að vera með.“

Þættirnir um Stellu vöktu athygli fyrir að vera stílfærðari og ýktari en gengur og gerist í norrænum glæpaþáttum. „Fyrir mig sem leikara er það mjög skemmtilegt.  Núna fengum við að taka þetta miklu lengra og svona sitja almennilega í því. Maður fær ekki oft þannig tækifæri, að fá að virkilega að ýkja „performansinn.“

Heiða er í Ungverjalandi þessi dægrin við tökur á bandarísku þáttunum FBI: International, þar sem hún fer með eitt aðalhlutverkanna.  „Já, þetta er alveg nýkomið en strax komið í sjónvarpið í Bandaríkjunum. Þetta er þriðja þáttaröðin í þessum FBI-heimi. Ég er hluti af FBI teymi sem er staðsett í Evrópu þannig að ég er í Búdapest eins og er í tökum,“ segir hún að lokum. „Ég verð hér alveg út árið og fram á næsta ár. Síðan sjáum við bara til hvað gerist eftir það.“

Rætt var við Heiðu Reed í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Langaði að gera eitthvað allt öðruvísi