Snemmbúin sköpunarsaga íslenskrar myndlistar

Mynd: Listasafn Reykjavíkur / Listasafn Reykjavíkur

Snemmbúin sköpunarsaga íslenskrar myndlistar

03.10.2021 - 13:00

Höfundar

Horft er til nærumhverfis í starfi Listasafns Reykjavíkur á sýningunni Iðavelli. Sýningin er forvitnileg fyrir þær sakir að hún vekur upp krítískar spurningar um hlutverk listasafna í samtímanum og það vald sem þau hafa sem opinberar menningarstofnanir, segir Ólöf Gerður Sigfúsdóttir.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Frá því í júní síðastliðnum hefur staðið yfir umfangsmikil sýning á íslenskri samtímalist í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur. Sýningin ber yfirskriftina Iðavöllur og er forvitnileg fyrir margra hluta sakir; sýningarkonseptið er athyglisvert, yfirskriftin grípandi og yfirbragðið hressilegt, og þá er listamannahópurinn stór og verkin öll ný. Tilvísunin í Iðavöll er sótt úr Norrænni goðafræði og vísar til þess staðar sem æsirnir komu saman á við frumsköpun heimsins, og svo aftur til að endurskapa nýja heimsmynd eftir Ragnarök, eins og kemur fram í Völuspá.

Þessi sýning er afar yfirgripsmikil og flæðir um allt Hafnarhús, auk þess sem vegleg sýningarskrá er gefin út í tilefni hennar. Og viðfangsefnið sjálft er sömuleiðs stórt: íslensk myndlist á 21. öld. Hér er búið að velja til leiks fjórtán listamenn sem safnið telur vera leiðandi afl sinnar kynslóðar, listamenn sem hafa „mótað listalífið hér á landi í upphafi nýrrar aldar“, eins og segir í sýningarskrá. Og markmiðið er að gefa áhorfendum innsýn í heimsmynd þessarar kynslóðar, eins og hún endurspeglast í verkum listamannannas.

Kynslóðin sem um ræðir er nokkuð óræð í sjálfri sér, hún fellur einhversstaðar á milli X og Y kynslóðanna, en yngsti listamaðurinn er fæddur árið 1984 og sá elsti 1973. Kynslóðinni er lýst sem þeirri sem man eftir eftir heiminum án internets, snjalltækja og samfélagsmiðla, þetta er kynslóðin sem upplifði efnahagshrunið og #MeToo-byltinguna, þetta er fólkið sem brýtur niður staðlaðar kynjaímyndir, horfist í augu við hamfarahlýnun og upplifir alheimsvæðingu hugmynda- og efnahagskerfa. Og hér býður safnið sig fram sem vettvang, eða eins konar völl, fyrir þessar útvöldu listamenn að athafna sig á, með formerkjum eins og „umbreyting“, „andstaða“, „inngrip“, „uppskurður“ og „nýjar víddir“, eins og kemur fram í kynningartexta.

Heimsmyndin sem þarna er varpað upp er flókin og marglaga, en í sumum tilfellum þótti mér erfitt að sjá tengingar milli hennar og einstakra verka. Stundum hafði ég það á tilfinningunni að sýningarkonseptið væri ef til vill of fyrirferðarmikið sem umgjörð utan um verkin og listamennina, sem fulltrúa heillar kynslóðar. Ekki gat ég fundið mikið fyrir því að listamennirnir væru að hrista upp í kerfum eða pönkast í stúrktúrum, en það segir sennilega meira um eiginleika þessarar kynslóðar fremur en nokkuð annað. Það vekur hinsvegar athygli hversu mikið pláss hver og einn listamaður fær til að athafna sig og setja fram sín verk, enda fara þau út um víðan völl, ef svo má segja. Hér er allt Hafnarhúsið undir, innra rými sem og ytra byrði, en sýningin teygir anga sína út í portið og upp um glugga, sem skilja má sem tilraun safnsins til að tengjast borgarrýminu og samfélaginu utan veggja þess.

Meðan ég gekk í gegnum sýninguna upplifði ég listamennina frekar einangraða hver frá öðrum, verk þeirra komu mér fyrir sjónir sem eylönd fremur en að virkt samtal væri í gangi þeirra á milli, og stundum átti ég erfitt með að tengja þau öll saman. Fyrir vikið virkaði sýningin að einhverju leyti á mig eins og „bland í poka“, en slíkt gerist gjarnan á stórum sýningum sem hafa tiltekna kynslóð fyrir þema. Ég gerði mér að vísu ekki gert mér grein fyrir þessari tengingu fyrr en eftir að ég las grípandi texta Kristínar Eiríksdóttur í sýningarskrá, sem einmitt gerir „bland í poka“ að söguefni sínu.

Hinsvegar þykir mér sýningin forvitnileg fyrir þær sakir að hún vekur upp krítískar spurningar um hlutverk listasafna í samtímanum og það vald sem þau hafa sem opinberar menningarstofnanir. Hér setur Listasafn Reykjavíkur sýninguna fram af meðvitund um eigin stöðu í listheiminum, sem stofnun sem hefur áhrif á ritun listasögunnar og hefur vald til að skilgreina kanónur og undirsögur, jafnvel þótt það kunni að virðast eins og þjófstart að ræða einkenni íslenskrar myndlistar á 21. öld þegar einungis tveir áratugir eru liðnir af öldinni.

En það má auðvitað rýna í þessa metnaðarfullu sýningu út einhverjum allt öðrum sjónarhornum, eins og t.d. vali á listamönnunum, út frá verkunum sjálfum auðvitað, kynslóðavíddinni eða fagurfræðinni. Ég hef hinsvegar kosið að fjalla um stofnunina sjálfa og þá sögn sem felst í að setja þessa sýningu á dagskrá, en hún er einmitt kærkomið tækifæri til að staldra við og velta upp spurningum um valdið sem fylgir listasöfnum sem opinberum stofnunum í samfélagi okkar, áhrifum þeirra á listmarkaðinn, listasöguna og feril listamannanna sjálfra.

Eins og kemur fram í kynningartexta, þá vill safnið „tengja listina og lífið sjálft, brúa bilið á milli þeirra sem skapa og þeirra sem upplifa nýja hugsun eða nýja nálgun við hið þekkta.“ Þótt ég skilji kannski ekki nákvæmlega hvað er átt við hér, þá má engu að síður segja að í þessum viðburði sem sýningin óneitanlega er, sé fólgin tiltekin sögn, einhverskonar látbragð eða bending, um hlutverk safnsins sem nær langt út fyrir þessa tilteknu sýningu sem hér um ræðir. Þannig skapast samtal við sýningar af svipuðu tagi sem á undan hafa komið og aðrar sem munu líklega eiga sér stað í náinni framtíð, og þannig verður safnið lykiláhrifavaldur í sköpunarsögu íslenskrar myndlistar, jafnvel sterkari enn hin akademíska framleiðsla sögunnar sem unnin er innan háskólakerfisins.

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Útvíkkun einsleitrar myndlistarsenu

Pistlar

Iða feminískra strauma í Listasafni Árnesinga

Pistlar

Sköpunarferlið að baki hversdagslegra hluta

Pistlar

Framlag listanna til fræðilegrar orðræðu