Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Píratar styðja minnihlutastjórn

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir talskona Pírata, sagði í Silfrinu í morgun að flokkurinn myndi styðja minnihluta stjórn VG, Framsóknar og Samfylkingar. Hún segir ef málefnin eigi að ráða för gætu önnur stjórnarmynstur verið æskilegri en ríkisstjórn VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Þetta geri þau án þess að gera kröfu um að vera sjálf í ríkisstjórn, en þó komi vitanlega líka til greina fyrir flokkinn að fara í stjórnarmyndunarviðræður.

Ólíklegt að verði gengið aftur til kosninga

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir segir það sé óneitanlega mjög sérstök staða þingsins að þurfa að úrskurða um réttmæti eigin kjörs. Hún bendir að auki á að flokkarnir þrír sem sitji í ríkisstjórn, séu í meirihluta kjörbréfanefndar. Þau hafi það hlutverk að fjalla um kærur sem lagðar hafi verið fram um framkvæmd talningar í Norðvestur kjördæmi og svo sé það í höndum þingmanna sjálfra að úrskurða um réttmæti kosninganna. Það sé því ólíklegt að verði gengið aftur til kosninga.

„Mér finnst það bara svolítið óþægilegt akkúrat núna, með alla þessa óvissu sem er uppi um niðurstöðu kosninganna séu ríkisstjórnarmyndunar viðræður í fullum gangi“ segir Þórhildur Sunna. „Til hliðar við þá staðreynd að kjörbréfanefnd býður mjög stórt verkefni“.

Telur ákvörðun þegar liggja fyrir

„Mér finnst það senda svolítið skökk skilaboð að vera í óðaönn að mynda ríkisstjórn, með meirihluta í þessari nefnd. Mér finnst það senda skýr skilaboð um að það sé nú þegar búið að taka ákvörðun“ segir hún. Að hennar mati sé það ljóst að ekki verði gengið aftur til kosninga.

Þetta kom fram í umræðum Þórhildar Sunnu, sitjandi þingmanns, sem og nýrra þingmanna í Silfrinu í dag. Þeir möguleikar sem virðast liggja fyrir séu uppkosning, það er að gengið verði aftur til kosninga í Norðvestur kjördæmi, að kosið verði aftur í öllum kjördæmum eða að niðurstöður kosninganna standi.

Hægt er að horfa á Silfrið í heild sinni hér á vef Rúv.is.