Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Pandora skjölin – Fjármál þjóðarleiðtoga opinberuð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - EPA
Tæplega tólf milljónum skjala hefur verið lekið um áður leynileg fjármál þjóðarleiðtoga, í því sem kallað er Pandora skjölin. Fjöldi skjalanna og innihald þeirra svipar til Panama skjalanna, en Pandora skjölin eru þó nokkuð umfangsmeiri. Breska ríkisútvarpið greinir frá að í skjölunum séu opinberuð vafasöm viðskipti um 35 fyrrum eða núverandi þjóðarleiðtoga, þar á meðal við aflandsfélög í svokölluðum skattaskjólum. Einnig eru í skjölunum gögn um viðskipti um 300 embættismanna.

Skjölunum var lekið frá 14 fjármála fyrirtækjum sem staðsett eru víða um heim, þar á meðal í Panama, Belís, Kýpur, Sameinuðu Arabísku furstadæmunum og Sviss.

Að sögn breska ríkisútvarpsins er greining skjalanna eitt stærsta samstarfsverkefni blaða- og fréttamanna frá upphafi, en yfir 600 blaðamenn hafa eytt mörgum mánuðum í að flokka þetta ógrynni af gögnum.

Konungur Jórdaníu kaupir eignir fyrir 100 milljónir dollara

Einn þeirra sem skjölin ná til er Abdullah II bil Al-Hussein, konungur ríkisins Jórdaníu til 22 ára. Pandora skjölin opinbera að Abdullah hefur eytt um hundrað milljónum dollara í eignir í Bandaríkjunum og í Bretlandi, í gegnum fyrirtæki í skattaskjólum. Meðal eignanna eru þrjár villur í Kaliforníu og glæsi íbúðir á dýrustu götum Lundúna. Í gögnum fyrirtækjanna er mikið lagt upp úr því að greina ekki frá hver eigandi þeirra sé, og er hann í einu skjalinu kallaður „þið vitið hver“.

Jórdanía er ekki ríkt land og hefur almenningur í landinu kvartað yfir skattahækkunum og versnandi kjörum. Lögfræðingur konungsins segir engin ólögleg viðskipti hafi átt sér stað. Þær eignir sem Abdullah eigi hafi hann keypt með eigin fjármunum.

Í skjölunum eru sögð vera vafasöm viðskipti fleiri þjóðþekktra einstaklinga, líkt og Tony Blair fyrrum forsætisráðherra Breta, Vladimir Putin Rússlands forseta og Andrej Babis forsætisráðherra Tékka.

Kærasta Vladimir Putin eignast glæsiíbúðir í gegnum aflandsfélög

Washington Post greinir frá því að um það leyti sem rússinn Svetlana Krivonogikh eignaðist sitt fyrsta barn, hafi hún eignast glæsiíbúð í Mónakó. Íbúðin kostaði yfir fjórar milljónir Bandaríkjadollara, árið 2003, en er eflaust margfalt meira virði nú.

Ólíklegt telst þó að Svetlana hafi sjálf geta keypt sér slíkt húsnæði, þar sem hún hafði lítið verið á vinnumarkaði - og þá síðast hafði hún unnið við að þrífa verslun. Hins vegar var Svetlana sögð kærasta Vladimirs Putin Rússlands forseta um árabil.

Svetlana Krivonogikh afneitar öllum tengslum við Putin. Dóttir hennar Luiza Rozova, þykir mörgum þó sláandi lík forsetanum. Þær eru báðar gífurlega efnaðar í dag og á Svetlana meirihluta í rússkenska bankanum Rossiya.

Andrej Babis keypti 22 milljón dollara hús í Frakklandi

Andrej Babis, forsætisráðherra Tékklands sem sækist nú eftir endurkjöri, keypti í gegnum aflandsfélag 22 milljón dollara hús í Cannes í Frakklandi. Hann hefur á stjónmálaferli sínum talað um sjálfan sig sem einskonar mótvægi við evrópska elítu. Hann hefur ítrekað í Tékkneskum fjölmiðlum að hann og fyrirtæki hans fari að lögum og borgi skatta í Tékklandi.

Búast má við áframhaldandi umjöllun um Pandora skjölin á vef Rúv.is næstu daga.

Olofre's picture
Ólöf Rún Erlendsdóttir