Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Leggur til allsherjarhreinsanir vegna riðu í Skagafirði

03.10.2021 - 20:12
Umfangsmiklar hreinsanir og niðurskurður á sauðfé á öllum bæjum í riðusýktu hólfi í Skagafirði er nauðsynlegt til að uppræta sjúkdóminn. Þetta segir fyrrverandi yfirdýralæknir. Mikilvægt sé að veita bændum tilfinningalega aðstoð að niðurskurði loknum. Hann segir aðgerðirnar sársaukafullar, en nauðsynlegar. 

„Riðan er bara mjög alvarlegur og erfiður sjúkdómur. Það er ekki hægt að finna út hvort það eru sýktar kindur í hjörðinni. Eina svarið sem fæst er þegar hausinn er tekinn af, þá er að komast í mænukylfu. En þetta er mjög sérstakur og erfiður sjúkdómur.”
- Halldór Runólfsson, fyrrverandi yfirdýralæknir 

Riðuveiki er ólæknandi og banvænn smitsjúkdómur sem veldur hrörnun í heila og mænu. Einkenni, sem eru meðal annars kláði, taugaveiklun, skjálfti og lömun, koma oftast fram á innan við fimm árum frá smiti. 

Bændablaðið er með ítarlega umfjöllun um riðusmitin sem hafa greinst í Skagafirði undanfarið ár. Þar er líka birt grein eftir Halldór, þar sem hann leggur til sársaukafullar aðgerðir til að stoppa smitin, sem hafa dreift sér á að minnsta kosti sex bæi í sama hólfinu í Skagafirði.  

„Með radíus í kring um Varmahlíð. Svoleiðis að þetta er áhyggjuefni að þetta skuli alltaf vera að greinast,” segir Halldór. 

Stórfelldur niðurskurður í öllu hólfinu

Hann mælir með stórfelldum niðurskurði á öllum bæjum í Húna- og Skagahólfi, nema hægt verði að sanna að enginn samgangur hafi verið á milli skepnanna. Annars skuli öllum kindunum lógað. 

„Til þess að fá einhvern frið og einhverja framtíð þá þarf að fara í svona alvarlegar aðgerðir. Þó að þær séu mjög harkalegar.”

Svo þarf að fara í mjög umfangsmiklar hreinsanir á jörðunum, sótthreinsa allt og skipta um jarðveg. 

„Öll gömul kindahús tekin í gegn. Ef það er ekki hægt að sótthreinsa þau þá þarf að jafna þau við jörðu,” segir hann. „Í svona aðgerð eru það ekki bara riðubæirnir, heldur líka bæir sem hafa ekki greinst. Þeir verða að vera með líka því að þeir gætu verið þeir næstu sem kæmu í röðinni.”

Tilfinningalega tjónið alvarlegra

Halldór var lengi yfirdýralæknir og skrifstofustjóri í atvinnuvegaráðuneytinu. Hann segir fjárhagslegt tjón bænda bætt í grunninn - tilfinningalega tjónið sé mun erfiðara. 

„Það verður líka að taka tillit til þess. Og það kannski hefur ekki, á undanförnum árum og áratugum, verið gætt að því,” segir hann. „Þetta er enginn heimsendir heldur oft fær fólk nýtt fé frá hreinum svæðum sem er vel ræktað og fólkinu hefur gengið ágætlega að byrja upp á nýtt.”