Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kanadamaður ákærður fyrir starf fyrir hryðjuverkasamtök

03.10.2021 - 00:31
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Kanadamaður á fertugsaldri sem starfaði fyrir og barðist með hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki er í haldi Bandaríkjamanna og hefur verið ákærður.

Fram kemur í tilkynningu dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna að maðurinn, Mohammed Khalifa að nafni, hafi einnig tekið þátt í framleiðslu ofbeldisfullra áróðursmyndbanda.

Hann er fæddur í Sádi-Arabíu en var handtekinn í Sýrlandi í janúar 2019 og nýlega færður í hendur bandarískra yfirvalda. Hann á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi í Bandaríkjunum. 

Khalifa yfirgaf Kanada árið 2013 og gekk til liðs við íslamska ríkið í Sýrlandi. Vegna ensku- og arabískukunnáttu sinnar varð hann fljótlega lykilmaður í áróðursdeild samtakanna.

Meðal annars var hann þulur í tveimur afar ofbeldisfullum myndböndum sem ætlað var að lokka nýja liðsmenn að samtökunum.

Einnig átti hann þátt í gerð myndbanda sem sýndu aftökur fólks, þar á meðal bandarísku blaðamannanna James Foley og Steven Soloff sem myrtir voru 2014.

Raj Parekh alríkissaksóknari í Virginíuríki segir Khalifa ekki aðeins hafa barist með ISIS í Sýrlandi heldur hafi hann verið röddin á bak við ofbeldi þeirra. Hann hafi verið maðurinn sem sveipaði morð þeirra og illsku dýrðarljóma.

Khalifa virðist ekki sýna neina iðrun vegna verka sinna og sagðist í viðtali við kanadíska sjónvarpsstöð árið 2019 vilja snúa aftur þangað ásamt konu sinni og þremur börnum þeirra.

Hann setti þó sem skilyrði að hann yrði ekki ákærður þar. Kanadískum stjórnvöldum er þó verulega áfram um að ákæra hann að því er kemur fram í þarlendum fjölmiðlum.