Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Erfitt að manna vaktir á SAk vegna kórónuveirusmita

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Rúmlega átta hundruð manns eru í sóttkví á Akureyri og tæplega sextíu í einangrun með covid. Kalla hefur þurft út auka mannskap til að manna vaktir á Sjúkrahúsinu á Akureyri vegna þess hve margir starfsmenn eru í sóttkví eða einangrun.

Erfiðlega gengur að manna vaktir á Sjúkrahúsinu á Akureyri þar sem margir starfsmenn eru ýmist í sóttkví eða einangrun. Alls greindust ellefu smit í gær á Akureyri. Samtals eru 65 smit á Norðurlandi. Flest smitin eru á Akureyri eða 58. Rúmlega átta hundruð manns eru í sóttkví.

Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, segir að enn sem komið er hafi enginn þurft að leggjast inn vegna hópsýkingarinnar sem hófst fyrir nokkrum dögum. 

„Hins vegar hefur þetta truflað starfsemina okkar þó nokkuð vegna þess að að eru margir foreldrar sem eru heima annað hvort hjá börnum í sóttkví eða jafnvel hjá börnum sem þurfa að vera í einangrun. Það hefur orðið svolítið brottfall af fólki úr vinnunni vegna þessa. Við höfum þurft að kalla út töluvert af aukavöktum og annað slíkt,“ segir Sigurður. 

Þannig að það er meira púsluspil að manna vaktirnar?

„Já og það er alveg fyrirsjáanlegt ef fram heldur sem horfir að þetta getur haft truflandi áhrif á a.m.k. valkvæðar starfsemi á næstunni,“ segir Sigurður. 

Eruð þið farin að skoða það að fresta aðgerðum?

„Já, það verður skoðað strax á mánudagsmorgun, hvernig aðstæður eru. Síðan verður staðan tekin á hverjum degi. Við þurfum líka að huga að öðru eins og hvort við þurfum að draga úr heimsóknum. Við höfum þegar beðið fólk um að koma ekki með börn á sjúkrahúsið. Þessi bylgja virðist vera aðallega meðal grunnskólabarna,“ segir Sigurður.

Bylgjan sem nú er byrjaði að rísa rétt fyrir helgina og því er of snemmt að segja til um hvort einhverjir þurfa að leggjast inn á sjúkrahús.