Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Alþingi á síðasta orðið um ógildingu kosninga

Alþingi tekur lokaákvörðun um hvort kosið verður aftur í Norðvesturkjördæmi. Þetta segir Davíð Þór Björgvinsson landsréttardómari, fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og stundakennari í stjórnskipunarrétti við HR. Einstaklingar geti farið með mál um framkvæmd kosninganna í gegnum dómskerfið, og jafnvel reynt að fá það tekið fyrir hjá Mannréttindadómstól Evrópu. Það geti þó aldrei orðið til þess að ógilda úrslit kosninga.

Kjörbréfanefnd Alþingis fjallar um kærur á framkvæmd alþingiskosninganna. Oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi hefur nú þegar kært hana, og bæði Guðmundur Gunnarsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir ætla að leggja fram kæru á mánudaginn. Þau voru bæði á þingi eftir fyrri talningu í Norðvesturkjördæmi en duttu út eftir þá síðari. Þeir alþingismenn sem fengu kjörbréfum úthlutað frá landskjörstjórn í gær greiða síðan atkvæði með eða á móti tillögu kjörbréfanefndar um hvort uppkosning verður haldin í kjördæminu, nema þeir kjósi að sitja hjá.

„Mér sýnist kosningalöggjöfin gera ráð fyrir því að það verði lokaákvörðun sem ekki verði borin undir dómstóla," segir Davíð Þór. „Hitt er svo annað mál að einstaklingar sem ekki telja sig hafa notið fullra réttinda kunna að hafa úrræði til að leita réttar síns, eða eftir atvikum freista þess að fá viðurkenningu á því að einhver réttindi þeirra hafi verið brotin."

Davíð Þór segir að bæði kjósendur og frambjóðendur geti látið reyna á dómstólaleiðina. Þeir þyrftu þá að fara fyrir innlenda dómstóla fyrst áður en þeir létu reyna á málið fyrir mannréttindadómstólnum.

„En slíkur dómur gæti aldrei endað með því að einhver kosning verði ógilt, heldur með því að viðkomandi einstaklingur fengi einhverjar miskabætur," segir Davíð Þór.

Sumir hafa haldið því fram að Alþingi sé vanhæft til að kveða upp úr um eigin samsetningu, en Davíð Þór segir að löggjöfin sé skýr.

„Ég held að það sé best að hugsa þetta út frá því að valdið kemur frá fólkinu. Kosningarnar eru til þess að leiða í ljós vilja borgaranna. Ef hann er skýr, þá hlýtur það að standa. Þrátt fyrir að það kunni að vera einhverjir annmarkar á framkvæmd kosninganna."

Þannig að þér finnst ekki rök hníga að því að það verði kosið aftur í Norðvesturkjördæmi?

„Ég ætla ekki að svara því. Þá væri ég að taka afstöðu til lögfræðilegra álitaefna sem er ekki rétt að ég taki afstöðu til," segir Davíð Þór Björgvinsson