
Þingkonur segja frá reynslu sinni af þungunarrofi
Þann fyrsta september síðastliðinn tóku gildi ný lög í Texas-ríki í Bandaríkjunum. Samkvæmt þeim er þungunarrof óheimilt eftir sex vikna meðgöngu. Lögin umdeildu eru oft kölluð hjartsláttarlögin. Það er alla jafna eftir um sex vikna meðgöngu sem hjartsláttur greinist fyrst hjá fóstri. Engar undanþágur verða veittar vegna þungunar af völdum nauðgunar eða sifjaspells en grípa má inn í teljist heilsu konunnar stafa hættu af meðgöngunni. Einnig verður borgurum heimilt að höfða einkamál gegn hverjum þeim sem aðstoðar þungaða konu við að rjúfa meðgöngu eftir sjöttu viku.
Lagabreytingunni var og er enn mótmælt harðlega og Bandaríkjastjórn hefur kallað eftir því að alríkisdómari ógildi lögin. Robert Pitman, umdæmisdómari í Texas hefur málið nú á sinni könnu en niðurstöðu hans er að vænta á næstunni.
Á fimmtudag deildu nokkrar bandarískar þingkonur sögum sínum í þingsal. Ein þeirra er Demókratinn Cori Bush. Hún var 18 ára þegar hún tók ákvörðun um að enda meðgöngu sem var til komin eftir nauðgun. Hún sagði að ákvörðunin væri sú erfiðasta sem hún hafi tekið en jafnfram sú rétta.
To all the Black women and girls who have had or will have abortions — know this: We have nothing to be ashamed of. We live in a society that has failed to legislate love and justice for us.
But we deserve better.
We demand better.
We are worthy of better. pic.twitter.com/lZkpucCQ9v
— Congresswoman Cori Bush (@RepCori) September 30, 2021
„Það var frelsandi að vita að ég hafði þennan möguleika. Samt sem áður tók það mig mjög langan tíma að jafna mig. Svo mín skilaboð til allra svartra kvenna og stúlkna sem undirgangast þungunarrof, við höfum ekkert til að skammast okkar fyrir,“ sagði Cori Bush.
Árlega kemur fjöldi bandarískra kvenna saman undir merkum Woman's March og berst gegn kynjamisrétti. Mótælagöngur dagsins verða á sjöunda hundrað víðsvegar um Bandaríkin og eru að þessu sinni helgaðar rétti kvenna til þungunnarrofs þar sem umdeildri lagabreytingunni í Texas verður mótmælt.