Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Silfrastaðakirkja flutt á brott til viðgerðar

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Silfrastaðakirkja í Skagafirði hefur verið flutt inn á Sauðárkrók til viðgerðar. Kirkjan var reist árið 1896 og er friðuð, en hún var farin að láta verulega á sjá. Kirkjan var orðin sigin, illa farin af fúa og var kirkjuturninn sagður alveg ónýtur. Söfnuðurinn hefur fengið háan styrk frá Húsfriðunarsjóði fyrir verkinu, fimm milljónir króna, en það dugar þó aðeins fyrir um einum tíunda af viðgerðarkostnaði.

Kirkjuturninn var fjarlægður í sumar og standa yfir viðgerðir á honum. Nú hefur kirkjan verið tæmd af öllum innstokksmunum, klæðning fjarlægð sem og hluti af gluggum.

Kirkjan var svo hífð af grunninum í heilu lagi í gær, sett á vöruflutningabíl og keyrð inn á Sauðárkrók. Þar eru áætlaðar viðgerðir á fótstykki og burðargrind.

Áætlað er að viðgerðin í heild taki fimm ár og kosti fimmtíu milljónir króna.

Olofre's picture
Ólöf Rún Erlendsdóttir
agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV