Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Rósa Björk og Guðmundur kæra endurtalningu atkvæða

Mynd: Geir Ólafsson / RUV
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, frambjóðandi Samfylkingarinnar, og Guðmundur Gunnarsson, frambjóðandi Viðreisnar, hafa ákveðið að kæra endurtalningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi til kjörbréfanefndar Alþingis. Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður þeirra, segir að sér virðist sem komin séu upp atriði sem kunni að varða ógildingu kosninganna í kjördæminu.

Landskjörstjórn lýsti því yfir á þriðjudaginn að ekki hefði fengist staðfest að meðferð kjörgagna í Norðvesturkjördæmi hefði verið fullnægjandi eftir kosningarnar fyrir viku. Hún úthlutaði engu að síður þingsætum í gær í samræmi við niðurstöðu seinni talningar atkvæða í kjördæminu. Rósa Björk og Guðmundur voru bæði inni á þingi eftir fyrri talninguna en duttu út eftir þá seinni. Í þeirra stað komu aðrir frambjóðendur sömu flokka, og þingmannaskipting flokkanna breyttist ekki. Rósa Björk og Guðmundur hafa bæði staðfest við fréttastofu að þau hyggist kæra talninguna til kjörbréfanefndar Alþingis, sem tekur ákvörðun um meðferð málsins. Fyrir hafði Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi, lagt inn kæru.

Lögmaður þeirra, Sigurður Örn Hilmarsson, var spurður að því í þættinum Vikulokunum á Rás 1, hvort hann teldi að fjöldi þeirra atriða sem fundið hefði verið að á talningunni í Norðvesturkjördæmi væri sambærilegur við þau atriði sem hefðu orðið til þess að Hæstiréttur ógilti kosningu til stjórnlagaþings árið 2011.

„Ég held að það megi segja svo,“ sagði Sigurður Örn. „Að þarna séu komin upp atriði sem kunna að varða ógildingu. Þetta eru nokkuð mörg atriði sem virðast hafa farið úrskeiðis. Alvarlegast er þetta sem ég hef nefnt um varðveislu gagnanna, en þarna eru önnur atriði líka.“

Erfitt fyrir okkur öll

Guðbrandur Einarsson fékk í gær afhent kjörbréf sem þingmaður Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi, í stað Guðmundar í Norðvesturkjördæmi. Hann kvaðst hafa skilning á því að þau sem misst hefðu þingsæti ætli að kæra niðurstöðuna: „Já, ég hef það. Af því að það var búið að úthluta þeim þessu sæti. Ég skil það vel, en að sama skapi myndi ég kæra ef mér yrði hent út aftur. Þannig að það eru hlutir þarna sem þarf að fara vel í gegnum. Og þetta er mjög erfitt, því þarna eru flokksfélagar að bítast um það hvort fer inn. Þetta er kannski bara erfitt fyrir okkur öll.“