Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fimm COVID-dauðsföll í heiminum á hverri mínútu

02.10.2021 - 11:02
epa09500968 A member of the clinical staff wearing Personal Protective Equipment (PPE) cares for a patient with COVID-19 in the intensive care unit at the Al-Nasser Hospital in Khan Younis, southern Gaza Strip, 01 October 2021. Palestinians receive a vaccine against COVID-19 at the temporary vaccination center in Gaza City amid a noticeable increase in the number of daily infections and deaths.  EPA-EFE/MOHAMMED SABER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fimm milljónir hafa látist af völdum COVID-19 á heimsvísu, samkvæmt samantekt fréttamiðilsins Reuters. Dauðsföllum hefur fjölgað hraðar eftir því sem liðið hefur á faraldurinn, ekki síst eftir að Delta-afbrigðið tók yfir, og að meðaltali hafa átta þúsund látist úr COVID-19 á dag á síðustu vikunni, sem jafngildir fimm dauðsföllum á hverri mínútu.

Rúmur helmingur dauðsfalla hefur verið í Bandaríkjunum, Rússlandi, Brasilíu, Mexíkó og Indlandi.  Meira en helmingur jarðarbúa hefur ekki fengið fyrri skammt af bóluefni við COVID-19, þótt víða á Vesturlöndum bjóði heilbrigðisyfirvöld nú upp á örvunarskammta af bóluefni. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur ákveðið að COVAX-samstarfið leggi nú áherslu á að koma bóluefni til þeirra ríkja þar sem allra fæstir hafa fengið bólusetningu. Hingað til hefur úthlutun COVAX byggt einna helst á fólksfjölda í fátækum löndum.
 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV