Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Efar að nýjar reglur hafi teljandi áhrif á húsnæðisverð

02.10.2021 - 12:54
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Verðhækkun á húsnæði er helsti drifkraftur verðbólgu hér á landi og samkvæmt íbúðavísitölu Þjóðskrár hækkaði húsnæðisverð um 2,2 prósent milli mánaða í ágúst. Róbert Farestveit, hagfræðingur ASÍ, segir ólíklegt að nýjar reglur Seðlabankans um hámark greiðslubyrðar hafi teljandi áhrif á húsnæðisverð. Vandinn sé aðallega á framboðshliðinni.

Nýjar reglur hafi ekki áhrif á stóran hóp lántakenda

„Við höfum haft áhyggjur af því að húsnæðisverð er komið úr takti við undirliggjandi þætti og að það sé vottur af bólumyndun á húsnæðismarkaði. Það auðvitað hefur þau áhrif að erfitt er að kaupa húsnæði og erfitt að færast af leigumarkaði yfir á húsnæðismarkað,“ segir Róbert.

Hann telur ólíklegt að nýjar reglur Seðlabankans haldi húsnæðisverði í skefjum. Samkvæmt þeim takmarkast greiðslubyrðarhlutfall fasteignalána við 35 prósent af ráðstöfunartekjum, og 40 prósent fyrir fyrstu kaupendur.

„Seðlabankinn er að senda nokkuð skýr skilaboð inn á markaðinn en þessi aðgerð ein og sér hefur ekki mikil áhrif á markaðinn, þar sem þetta er tiltölulega nálægt þeim viðmiðum sem nú þegar eru við gerð greiðslumats. Þannig að þetta hefur ekki áhrif á stóran hóp lántakenda,“ segir hann. 

Vilja skoða auknar kröfur á eiginfjárhlutfalli

Róbert telur brýnt að skoða hversu stór hluti kaupenda kaupi þriðju eða fjórðu fasteignina um þessar mundir. 

„Við hefðum viljað skoða hvaða fjárfestingahreyfingar eru að fara inn á húsnæðismarkað. Til dæmis sparifé, hvort fólk eigi tvær eða þrjár eða fleiri fasteignir. Hvort það sé stór hópur og hvort það hafi áhrif til hækkunar húsnæðisverðs,“ segir hann. 

Jafnvel þyrfti að auknar kröfur um eiginfjárhlutföll hjá þeim sem fjárfesta í eignum. „Það er kannski skortur á upplýsingum um umfang á svona hreyfingum, hvort þetta eru lögaðilar eða fjárfestar að bæta við sig húsnæði. En ef það er mikið umfang undanfarið, þá er ástæða til að skoða slíkar takmarkanir,“ segir hann. Fyrst og fremst þurfi að huga að framboðshliðinni og halda áfram að byggja upp leigumarkað sem ekki er hagnaðardrifinn.