Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

COVID-19 smit á hjúkrunarheimili á Akureyri

02.10.2021 - 13:46
Mynd með færslu
 Mynd: Akureyrarbær - RÚV
Íbúar á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri eru komnir ýmist í sóttkví eða smitgát, vegna starfsmanns á heimilinu sem greindist smitaður af COVID-19 í gær. Að auki þurfa nokkrir starfsmenn að fara í sóttkví vegna smitsins. Um er að ræða heimilin Víði- og Furuhlíð. Lokað verður fyrir allar heimsóknir á þau heimili til og með 4. október, en þá er gert ráð fyrir niðurstöðum úr sýnatök um þeirra sem urðu útsettir fyrir smiti.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef hjúkrunarheimilisins. Viðbragðsáætlun var virkjuð í gærkvöld og segja stjórnendur að fyrirmælum rakningarteymis sé fylgt í hvívetna.

„Þetta er í fyrsta sinn síðan faraldurinn hófst sem smit hefur áhrif á starfsemi hjúkrunarheimila Heilsuverndar og hingað til hefur enginn íbúi smitast hvorki á Hlíð né Lögmannshlíð“ segir í tilkynningunni.

Að auki er tekið fram að óæskilegt sé að óbólusett börn og ungmenni komi inn á heimilið að sinni, þar sem aukning smita sé aðallega hjá þeim hópi. En mikið af COVID-19 smitum hafa greinst á Akureyri síðustu daga, meðal annars í skólum og leikskólum.