Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Aurskriður falla í Þingeyjarsveit vegna mikillar úrkomu

02.10.2021 - 17:50
Mynd með færslu
 Mynd: Jóna Björg Hlöðversdóttir - Aðsent
Það hefur verið töluverð úrkoma á norðanverðu landinu í dag. Vegurinn um Útkinn í Þingeyjarsýslum er lokaður vegna aurskriðu við bæinn Björg. Stór aurskriða féll við bæinn síðdegis sem skemmdi ljósleiðara og bóndi á svæðinu er búinn að koma búfénaði í skjól. Von er á áframhaldandi úrkomu á svæðinu í kvöld.

Jóna Björg Hlöðversdóttir bóndi á bænum Björgum í Þingeyjarsveit segir að heimilisfólk sé meðvitað um að vera ekki á ferð nærri fjallshlíðum í dag, þar sem líkur eru á enn fleiri skriðum þegar líður á kvöldið. Hún segir að það komi fyrir að falli aurskriður á þessum stað, en aldrei hafi þau orðið vör við eins margar á eins stuttum tíma og í dag.

Halda sig frá fjallshlíðum

„Þetta hófst með talsverðri úrkomu í gær og svo er búið að vera eins og hellt úr fötu í alla nótt og allan dag. Maður bara sér allt vaxa og bólgna upp“ segir Jóna.

Flæddi heim að bænum og yfir veg

„Ég held ég hafi talið í morgun þegar ég kom út úr fjósi fjórar eða fimm litlar aurskriður“ segir Jóna. „Svo hefur bara haldið áfram að rigna í allan morgun og allan dag. Um þrjú-fjögur leytið komu svo tvær stórar skriður sem fóru yfir veginn hérna heim að bænum og yfir tvö eða þrjú tún hjá okkur.“

Jóna segir þó ekki bráða hættu á ferð fyrir þau, þar sem bærinn standi uppi á lítilli hæð og búið sé að koma öllum búfénaði í skjól. Von er á áframhaldandi úrkomu á svæðinu í kvöld og nótt.

Grjóthrun á Siglufjarðarvegi

Töluvert af grjóti hefur hrunið niður á Siglufjarðarveg í dag, út frá Siglufirði og í Almenningum. Hætta er á hruni nú sídegis, í kvöld og fram á nótt og á vef Vegagerðarinnar eru vegfarendur beðnir að fara með gát um veginn.

Vegagerðin tilkynnti svo fyrr í dag um lokunina við Útkinn:

Olofre's picture
Ólöf Rún Erlendsdóttir