
Var því haldið fram að kortið væri frá árinu 1440, um fimmtíu árum áður en Kólumbus steig á land í vesturheimi.
Fræðimenn hafa frá upphafi haft efasemdir um kortið. Það þótti grunsamlega nákvæmt miðað við landafræðiþekkingu fimmtándu aldar og blekið óvenjulegt.
Vísindamenn við Yale-háskóla hafa nú kveðið upp endanlegan dóm yfir kortinu eftir að efnagreining leiddi í ljós mikið magn títaníumefnasambands í blekinu, efnasambands sem fyrst var framleitt árið 1920.
„Vínlandskortið er enn eitt dæmið í langri sögu falsana þar sem reynt er að sýna fram á veru Evrópumanna í Ameríku á miðöldum,“ segir Dale Kedwards, rannsóknardoktor við Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, í samtali við New York Times.
Uppgötvunin þykir þó engu breyta um landnám norrænna manna í Vesturheimi fyrir þúsund árum. Um þetta vitna bæði Raymond Clemens, safnstjóri hjá handritasafni Yale, og Gísli Sigurðsson, prófessor í norrænum fræðum hjá Árnastofnun.
Fornleifafræðingar og aðrir fræðimenn efast ekki um að lítill hópur norrænna manna hafi náð Nýfundnalandi um árið 1000 eins og sagt er frá í Eiríks sögu rauða og öðrum Íslendingasögum og fornleifauppgreftir hafa rennt stoðum undir.