Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Utan alfaraleiðar

Mynd með færslu
 Mynd: Dölli - Ef hið illa sigrar

Utan alfaraleiðar

01.10.2021 - 14:32

Höfundar

Ef hið illa sigrar er svanasöngur Dölla, Sölva Jónssonar, sem lést í fyrra, fjörutíu og fimm ára gamall. Frágangur plötunnar var í höndum Róberts Arnar Hjálmtýssonar (Ég). Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Dölla auðnaðist að gefa út slatta af plötum á skömmum tíma áður en hann var kallaður á brott allt of snemma. Í gegnum tíðina hef ég skrifað talsvert um það sem ég skýrði hamfarapopp, sérkennilega tónlist frá einyrkjum sem átta sig ekki á því sjálfir hversu undarleg tónlist þeirra er. Erlendis er þetta kallað „outsider music“ og er þessi geiri, ef svo mætti kalla, sæmilega fjölskrúðugur. Hér á landi höfum við t.d. státað af Pósthúsinu í Tuva, Atla Engilberts, Ólafi F. Magnússyni og Leoncie. Misundarlegir listamenn en allir einhvern veginn á skjön. Dölli fyllir þennan flokk hæglega, skrítin raddbeiting saman með frumlega samsettum – en þó grípandi – lögum. Heimagerð plötuumslög eru svo punkturinn yfir i-ið.

Undir það síðasta fór Dölli að vinna með Róberti Arnari Hjálmtýssyni, kenndum við hina stórkostlegu hljómsveit Ég, og var það hálfgert hjónaband í himnaríki tónlistarlega. Róbert fyllti út í hljóðrásirnar af smekkvísi á meðan Dölli sá um lagasmíðar, söng og konsept. Það er Róbert sem á heiðurinn af því að þessi plata, síðasta plata Dölla, lítur dagsins ljós og er það vel. Innihaldið er einfaldlega þannig. Verkið var um það bil hálfnað er Sölvi lést og hafði Róbert verið hægri hönd hans við upptökur. Dölli er sem áður höfundur alls efnis, syngur og leikur á kassagítar en Róbert Örn lék á önnur hljóðfæri og annaðist útsetningar og hljóð- og eftirvinnslu plötunnar ásamt George Huxley.

Þetta er líkast til best heppnaða verk Dölla og segir mjög mikið um þetta samstarf. Aðkoma Róberts er einkar viðeigandi, maður heyrir alveg líkindi með tónsmíðum þessara manna, en þess fyrir utan hefur Dölli aldrei hljómað betri og öruggari. Hver veit hvernig mál hefðu þróast, hefði almættið haft aðrar áætlanir.

Söngur Dölla er einstakur, en svo er líka um Megas og Dylan. Það er angist, mikil, í röddinni og beitingin slík að heyrn er sögu ríkari. Ég ætla að fara í gegnum nokkur dæmi. Platan, sem er tuttugu laga, ber þess merki að sumt var komið lengra en annað en ég hrósa Róberti fyrir að láta sumar skissurnar standa. „Gátum orðið næst“ er rúm mínúta, endurtekið vers en söngurinn og yfirbragðið er ekkert minna en snilldarlegt. „Hausinn af“ hljómar eins og lag af Hrekkjusvínaplötunni, hefði það lent í þeytivindu. Róbert gerir vel í að setja inn áhrifshljóð og gítarspil og mikið er nú gott að heyra í Ég-gítarnum. Í „Rót alls ills“ ræðir Dölli um peninga og ömurð þeirra og textalega er Dölli við sama heygarðshornið og á fyrri verkum. Pælingar um hvernig mannfólkinu er haldið niðri af valdafólki, það er nettur Chomsky yfir jafnvel, hvernig stríð þjóna fyrst og síðast gráðugu landvinningafólki o.s.frv. Dölli er beinskeyttur og hittir oft á góðar líkingar. „Skynlausar skepnur“ er t.d. gott, þar sem mannfólkið er skynlaust, ekki dýrin.
Þetta er giska magnað verk út í gegn og ég fagna því að þessi hlið íslenskrar tónlistarmenningar, sem er sæmilega stór, fái sviðsljós. Lagastíll Dölla er einstakur. Það eru áttunda áratugs þjóðlagatilþrif í gangi en mestanpart er þetta bara Döllatónlist. Óskiljanleg, undarleg, æðisleg. Hafið þökk fyrir vinir.