
Sex núll skorin af gjaldmiðli Venesúela
Hagkerfi Venesúela hefur rýrnað um áttatíu af hundraði frá árinu 2013. Fjármálastjórnin hefur verið í ólestri árum saman og við bætist stjórnarkreppa síðustu ára.
Þetta er í þriðja sinn á þrettán árum sem stjórnvöld grípa til þess ráðs að skera nokkur núll af bólívarnum og í þetta sinn fjúka sex. Milljón bólívarar gærdagsins verða að einum.
Að sögn AFP fréttastofunnar er hvergi í heiminum meiri verðbólga um þessar mundir en í Venesúela. Haft er eftir kennara í höfuðborginni Caracas að hann fái á hálfs mánaðar fresti útborgaða upphæð sem jafngildir tæplega þremur Bandaríkjadollurum, innan við fjögur hundruð íslenskum krónum. Leiga á íbúð í úthverfi höfuðborgarinnar kostar um tuttugu þúsund krónur á mánuði og matarkarfa fyrir fimm manns tuttugu og níu þúsund.
Ný rannsókn Andrés Bello háskólans í Venesúela leiðir í ljós að þrír af hverjum fjórum landsmönnum búa við sára fátækt. Þeir hafa innan við jafnvirði 250 króna til framfærslu á dag. Milljónir þurfa á fjárhagsaðstoð til að komast af. Auk lélegrar efnahagsstjórnar hefur COVID-19 farsóttin haft alvarleg áhrif á efnahag almennra borgara, að því er kemur fram í rannsókninni.