Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sex núll skorin af gjaldmiðli Venesúela

epa09395417 A picture taken showing four one million bolivar bills together with their equivalent of one dollar, in Caracas, Venezuela, 28 July 2021 (Issued 04 August 2021). The million bolivar bill was introduced in March, without much verve, when it was exchanged for 52 cents on the dollar, but the million bolivar bill went weeks without being seen in Venezuela. Now that the million bolivar bill is widely circulated, the relentless devaluation has led it to trade for less than 25 cents.  EPA-EFE/RONALD PENA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Seðlabankinn í Venesúela gefur í dag út nýja peningaseðla. Sex núll hafa verið skorin af bólívarnum, gjaldmiðli landsins. Efnahagurinn er í rúst og milljónir landsmanna þurfa á aðstoð að halda.

Hagkerfi Venesúela hefur rýrnað um áttatíu af hundraði frá árinu 2013. Fjármálastjórnin hefur verið í ólestri árum saman og við bætist stjórnarkreppa síðustu ára.

Þetta er í þriðja sinn á þrettán árum sem stjórnvöld grípa til þess ráðs að skera nokkur núll af bólívarnum og í þetta sinn fjúka sex. Milljón bólívarar gærdagsins verða að einum.

Að sögn AFP fréttastofunnar er hvergi í heiminum meiri verðbólga um þessar mundir en í Venesúela. Haft er eftir kennara í höfuðborginni Caracas að hann fái á hálfs mánaðar fresti útborgaða upphæð sem jafngildir tæplega þremur Bandaríkjadollurum, innan við fjögur hundruð íslenskum krónum. Leiga á íbúð í úthverfi höfuðborgarinnar kostar um tuttugu þúsund krónur á mánuði og matarkarfa fyrir fimm manns tuttugu og níu þúsund.

Ný rannsókn Andrés Bello háskólans í Venesúela leiðir í ljós að þrír af hverjum fjórum landsmönnum búa við sára fátækt. Þeir hafa innan við jafnvirði 250 króna til framfærslu á dag.  Milljónir þurfa á fjárhagsaðstoð til að komast af. Auk lélegrar efnahagsstjórnar hefur COVID-19 farsóttin haft alvarleg áhrif á efnahag almennra borgara, að því er kemur fram í rannsókninni.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV