Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ólík sýn ríkisstjórnarflokkanna

01.10.2021 - 16:04
Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Samkvæmt könnunum fyrir alþingiskosningarnar um síðustu helgi þá töldu kjósendur heilbrigðismál og umhverfis- og loftslagsmál stærstu og mikilvægustu kosningamálin.

Ganga ekki í takt 

Þetta kom m.a. fram í könnun Maskínu frá 13. september. Í kosningabaráttunni lögðu allir flokkar áherslu á þessi mál. Allir vilja öflugt heilbrigðiskerfi og að tekið verði á loftslags- og umhverfismálum. Leiðirnar sem flokkarnir vilja fara eru hins vegar ekki alltaf þær sömu. Það blasir við að ríkisstjórnarflokkarnir þrír sem nú ræða saman um flöt á áframhaldandi samstarfi þurfa bæði að semja og miðla málum í þessum mikilvægu efnum. Þeir ganga þar ekki í takt.

Einkarekstur eða opinber í heilbrigðismálum?

Bilið er lengst á milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks en Framsókn situr þarna á milli. Bæði þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa lýst yfir efasemdum og jafnvel andstöðu við hálendisþjóðgarðinn sem Vinstri græn leggja mikla áherslu á og verður fróðlegt að sjá hver lendingin verður í því máli í fyrirhuguðum stjórnarsáttmála, ef hún næst. Hin klassíska deila um vægi opinbers rekstrar og/eða einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu gæti líka reynt verulega á.

Hugsa fyrst og fremst út frá þörfum fólks

Við skulum til fróðleiks rifja upp hvað forystumenn flokkanna þriggja lögðu áherslu á í heilbrigðismálum í þáttunum Forystusætið á RÚV fyrr kosningar.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir að sjálfstæðismenn hugsi heilbrigðiskerfið út frá þörfum fólks, þeirri þjónustu sem fólk sækist eftir. „Þá er hægt að komast út úr þessum kreddum sem hafa oft einkennt umræður um heilbrigðismál og varða það að það skipti öllu að hið opinbera veiti þjónustuna" segir Bjarni.

„Blandað kerfi þar sem fjármagnið kemur úr opinberum sjóðum, þar sem við erum með opinbera heilsutryggingu í raun og veru á bak við alla þjónustu sem þarf að veita er það sem við trúum á. Við þurfum að hugsa þetta meira út frá þörfum þeirra sem sækja þjónustuna og ræðum minna um það að það skipti öllu að færa þjónustuþáttinn sjálfan inn undir þak hins opinbera.  Þetta er kjarninn í því sem við eigum við."

Dapurt að umræðan sé ekki dýpri

„Við munum þurfa áfram að auka framlögin í heilbrigðismál. Þau eru einn stærsti útgjaldaliðurinn, sem við stöndum undir. Mér finnst dapurt, satt best að segja, að umræðan á Íslandi sé ekki dýpri heldur en svo að við séum bara stödd í umræðunni; bíddu þarf ekki meiri framlög, já eða nei?  Við þurfum að komast miklu lengra en þetta. Þetta er einn stærsti útgjaldaliður okkar. Við þurfum að vera miklu betri í að greina og svara spurningunni; hvar erum við að ná góðum árangri, hvar getum við gert betur?" 

Ekki góð í að samræma kerfin

Þið hafið talað um að þið viljið flytja heilbrigðisþjónustuna yfir á einkafyrirtæki. Erum við að tala um að fólk geti borgað sig fram fyrir röð í heilbrigðiskerfinu? 

„Það sem gerist þegar myndast biðraðir er t.d. þegar sjúkraþjálfarar til skamms tíma komust ekki inn á samning hjá Sjúkratryggingum án þess að hafa starfað í tvö ár hjá hinu opinbera. Þannig myndast tvöfalt kerfi. Við erum ekki að biðja um að það séu einhverjir ákveðnir þættir heilbrigðiskerfisins teknir frá hinu opinbera og færðir til einkageirans. Við erum einfaldlega að tala um að það þurfi að tryggja flæði og samstarf þessara eininga og við höfum ekki verið neitt sérstaklega góð í því" sagði Bjarni Benediktsson í Forystusætinu.

Bestu heilbrigðiskerfin eru félagsleg og opinber

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs var á dálítið annarri línu þegar hún svaraði spurningunni:  Viljið þið að opinbera heilbrigðiskerfið sinni öllum heilbrigðisverkum? Hefur ekki verið sýnt fram á að einkarekstur dugar bara ágætlega til að sinna álitlegum læknisverkum?

„Rannsóknir hafa einmitt sýnt fram á að bestu heilbrigðiskerfi heimsins eru hin félagslegu opinberu heilbrigðiskerfi, sem er auðvitað undirstaðan í íslenska heilbrigðiskerfinu. Það sem við sögðum fyrir síðustu kosningar og stóðum við var að þarna hefur í raun og veru verið mikil uppsöfnuð þörf til þess að bæta í rekstur og styðja betur við kerfið og það höfum við verið að gera. Og fyrir því finnur fólk alveg. Fólk finnur fyrir því að þjónusta heilsugæslunnar t.a.m. er fjölbreyttari og betri vegna þess að við höfum verið að styðja við rekstur hennar" segir Katrín.

Snýst ekki um andstöðu VG við einkarekstur

Finnst þér réttlætanlegt  eins og nú er að senda sjúklinga í biðlistaaðgerðir til útlanda þegar hægt er að vinna þær á einkastofum hér heima og borga helmingi minna fyrir? 

„Þetta er bara auðvitað hluti af þessari heildarmynd sem skiptir svo miklu máli. Þetta snýst ekki um það að við í Vinstri Grænum séum svo mikið á móti einkarekstri. Hins vegar höfum við tekið mjög alvarlega þær ábendingar sem t.a.m. hafa komið fram frá Ríkisendurskoðun um síðustu samninga við sérfræðilækna svo ég vitni t.d. til þess. Það skiptir máli að ríkið greini ákveðna þjónustuþörf, að ríkið hafi ákveðið þak á þeim samningum sem það gerir og að það sé eftirlit með þeim samningum. Eftir þeirri heilbrigðisstefnu hefur verið unnið, en þetta tekur tíma" sagði Katrín Jakobsdóttir.    

Erum ekki að boða eina stefnu 

Í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknarflokksins um heilbrigðismálin mátti glögglega heyra hvers vegna flokkurinn getur hallað sér bæði til vinstri og hægri. 

Þið segið að þið viljið skoða hvort það sé tilefni til aukins einkareksturs í heilbrigðiskerfinu. Það vekur athygli að það er ekkert minnst á Landsspítalann í kaflanum um heilbrigðismál. Eru skilaboðin sem þið eruð að senda þau að vandi heilbrigðiskerfisins verði leystur utan spítalans? 

„Nei. Við erum ekki að boða einhverja eina stefnu, einhver prinsipp sem þú ferð ekki út af. Við erum að segja einfaldlega; hér er verkefni, við þurfum að leysa það" segir Sigurður Ingi. 

Eðlilegt að bjóða út aðgerðir

„Við erum í mikilli uppbyggingu á Landsspítalanum. Það eru fá ár í það að meðferðarkjarninn og önnur starfsemi komist þar á laggirnar. Við erum að bæta í fjármagni, en það er fólk að lenda á milli kerfa. Við höfum sagt að biðlistar, sem eru of margir í dag, að við myndum vilja nálgast þá þannig að ef farið er í tiltekna aðgerð sem kominn er biðlisti á, að þá sé eðlilegt að bjóða hana út. Það getur verið að einhver einkaaðili á Íslandi bjóði best. Þá er sjálfsagt að kaupa einhverjar hundrað aðgerðir af slíkum aðila. Í staðinn fyrir að vera í einhverju kerfi sem þýði það ellegar að viðkomandi leiti til Svíþjóðar, eins og við þekkjum, fyrir þrisvar sinnum hærri upphæð".

Blandaða leiðin er best

„Við erum bara að segja að við viljum leita skynsamlegustu lausna í hvert sinn. Við erum með blandað heilbrigðiskerfi á Íslandi og við viljum nýta kosti þess betur og láta þau tala betur saman. Það er sóun í þessu eins og er".  

Sjáið þið fyrir ykkur að nota einkakerfið þegar þið talið um að stórefla heilbrigðiskerfið utan sjúkrastofnana? 

„Það þarf ekki að vera. Sveitarfélögin gætu og hafa tekið yfir hjúkrunarheimilin í meira mæli. Við höfum líka verið með heimili sem eru rekin af öflugum félagasamtökum. Það hefur líka gengið vel. Við eigum einfaldlega ekki segja að það sé einhver ein leið rétt þegar hið augljósa liggur á borðinu að hin blandaða leið er best. En við þurfum að vinna að lausninni á því borði" sagði Sigurður Ingi Jóhannsson.  

 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV