Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Metfjöldi nýtti ferðagjöfina á síðustu stundu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
44 þúsund nýttu ferðagjöfina sína í gær. Samtals voru því 223 milljónir króna innleystar, samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu. Þetta er langstærsti dagurinn frá upphafi ferðagjafarinnar.

Allir fæddir 2003 eða fyrr, með íslenska kennitölu, fengu ferðagjöf frá ríkinu sem er liður í því að styðja við bakið á íslenskri ferðaþjónustu í kjölfar heimsfaraldurs. Síðasti dagurinn til að nota ferðagjöfina var í gær.

214 þúsund ferðagjafir voru nýttar í ár, samtals að andvirði um eins milljarðs og 70 milljóna króna. 430 milljónir í formi ferðagjafa féllu niður ónýttar og létu því um 86 þúsund hjá líða að sækja eða nýta sína gjöf.

Flestir notuðu gjöfina á veitingastöðum eða rétt rúm 47 prósent, afþreyingarfyrirtæki voru með rúman 17 prósenta skerf, samgöngur 16 prósent og nærri 14 prósent nýttu sína gjöf í gistingu.

Langflestar ferðagjafir voru nýttar á höfuðborgarsvæðinu eða 51 prósent, næst á eftir komu Suðurland og Norðurland eystra, hvort um sig með 8,7 prósent innleystra ferðagjafa.