Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Kjörstjórn í Norðvesturkjördæmi harmar stöðuna

01.10.2021 - 14:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfirkjörstjórn í Norðvesturkjödæmi segist harma þá stöðu sem upp er komin varðandi störf nefndarinnar á talningarstað í nýafstöðnum Alþingiskosningum. Frambjóðendur og kjósendur eru beðnir afsökunar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis. Eins og fram hefur komið voru kjörgögn í Norðvesturkjördæmi ekki innsigluð og geymsla þeirra ekki í samræmi við kosningalög, og hefur formaður yfirkjörstjórnarinnar vísað til hefða um vörslu kjörgagna. Eftir endurtalningu í kjördæminu urðu talsverðar breytingar á þingsætaskipan á landinu öllu vegna mistaka við talningu. 

„Við viljum biðja frambjóðendur og kjósendur afsökunar, en ítrekum að talningarfólk og starfsfólk á talningarstað sinnti starfi sínu af alúð og heilindum. Við óskum eftir því að það verði ekki dregið í umræðu um málið enda ábyrgðin alfarið yfirkjörstjórnar.“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir jafnframt að hvorki yfirkjörstjórnin né einstakir fulltrúar hennar muni tjá sig frekar um málið að sinni. 

Búinn að kæra kosningarnar

Magnús D. Norðdahl oddviti Pírata í kjördæminu afhendi Alþingi í dag kosningakæru þar sem hann krefst þess að kosningarnar í kjördæminu verði úrskurðaðar ógildar, ný kjörstjórn verði skipuð og kosningarnar endurteknar.  Þá er þess einnig krafist að Alþingi fresti úrskurði um kjörbréf til allra þingmanna og  varaþingmanna í kjördæminu. Í kærunni eru málsatvik rakin og verulegir ágallar fundnir af framkvæmd kosninganna og vinnubrögðum yfirkjörstjórnar. 

„Allar málsástæður kærunnar, hver um sig og eins allar saman, fela í sér ógildingarannmarka sem eru til þess fallnir að draga úr trúverðugleika talningarinnar, sama hvort litið er til fyrri eða síðari talningarinnar, starfa yfirkjörstjórnar í heild og þar með trúverðugleika kosninganna sem fram fóru í kjördæminu. Eina leiðin til að leysa þann vanda sem við blasir er að skipa nýja og hæfa yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi og endurtaka kosningarnar þannig að hafið sé yfir allan vafa að farið sé eftir lögum og reglum. Það er sanngjörn og réttmæt krafa okkar frambjóðenda og ekki síst kjósenda í kjördæminu.“ segir Magnús í tilkynningu til fjölmiðla. 

Magnús Norðdahl lögmaður
 Mynd: Guðmundur Bergkvist Jónsson - RUV