Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hópsmit á Akureyri hefur lítil áhrif á skólahald

01.10.2021 - 11:51
Mynd með færslu
Röð í skimun á Akureyri.  Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Rúmlega 250 börn og 33 starfsmenn grunnskóla Akureyrar eru í sóttkví eftir að smit greindust í fjórum börnum í grunnskólum bæjarins. Sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar segir nýjar reglur um sóttkví koma í veg fyrir mikið rask á skólastarfi.

Tæplega 300 í sóttkví

Staðfest er að 12 börn í fjórum grunnskólum Akureyrarbæjar eru með COVID-19-smit. Við það fara liðlega 250 börn og 33 starfsmenn skólanna í sóttkví. Karl Frímannsson er sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar. Þetta hefur lítil áhrif á skólastarf, nema fyrir þá sem eru í sóttkví eða smitaðir. Rakningarteymið eða Almannavarnir gáfu ekki út frekari tilmæli um takmarkanir á skólastarfi. Þannig að skólastarf er bara með eðlilegum hætti svona annars, segir Karl. 

Nú voru reglur um sóttkví rýmkaðar en samt er allur þessi hópur í sóttkví, hefði þetta verið enn stærra fyrir þessa reglubreytingu?

„Já, þetta hefði verið enn stærra mál því nú er tekið á málum í hverju tilviki fyrir sig og það er reynt að einangra þessi tilvik eins og hægt er. Og við förum alfarið eftir tilmælum rakningarteymisins um fjölda í sóttkví og vinnum mjög náið með rakningarteymi þegar verið er að reyna að komast til botns í þessum málum.“  

Foreldrar hvattir til að halda börnum sínum til hlés

Í tilkynningu sem lögreglan á Norðurlandi eystra sendi frá sér í gær eru foreldrar hvattir til að halda börnum sínum frá samskiptum við önnur börn á meðan rakning fer fram. Jafnframt eru foreldrar hvattir til að skrá sig og börn sín í sýnatöku finni þau til einkenna.