Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fyrsta konunglega brúðkaupið í 127 ár

01.10.2021 - 18:08
epa09499521 The bridal couple, Grand Duke of Russia George Mikhailovich Romanov (L) and Victoria Romanovna Bettarini (R) attend their wedding ceremony rites at the St. Isaac's Cathedral in St. Petersburg, Russia, 01 October 2021. George Mikhailovich Romanov is a descendant of the Romanov family through his mother, recognized by a part of the monarchists (Cyrilists) as the heir to the supremacy in the Russian Imperial House.  EPA-EFE/ANATOLY MALTSEV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fyrsta konunglega brúðkaupið sem blásið hefur verið til í Rússlandi í meira en eina öld var haldið í dag í Sankti Pétursborg. Georgiy Mikhaylovich Romanov stórhertogi gekk að eiga ítalska heitkonu sína að viðstöddu fjölmenni.

Stórhertoginn hefur lýst sig erfingja rússnesku krúnunnar. Hann er sonur Franz Wilhelms Prússlandsprins og Maríu Vladimíróvu stórhertogaynju af Rússlandi. Ætt mæðginanna ríkti í landinu frá 1613 til 1917 þegar bolsévikar brutust til valda, steyptu Romanov-ættinni af stóli og myrtu síðar Nikulás annan keisara og fjölskyldu hans.

Georgiy Mikhaylovich Romanov og Rebecca Virginia Bettarini, dóttir ítalsks sendiherra, kynntust í Brussel þar sem hann starfaði við þing Evrópusambandsins. Þau giftu sig í dag í  dómkirkju heilags Ísaks í Sankti Pétursborg að viðstöddu fjölmenni. Þeirra á meðal voru prinsinn og prinsessan af Liechtenstein, fyrrverandi konungur og drottning Búlgaríu, forsætisráðherra Lúxemborgar og eiginmaður hans, rússneskir auðmenn og Maria Zakharova, talsmaður utanríkisráðuneytisins í Moskvu. Fimm hundruð gestir verða í brúðkaupsveislunni í kvöld.

Þetta er í fyrsta sinn í 127 ár sem konunglegt brúðkaup er haldið í Rússlandi, frá því að Nikulás annar og Alexandra keisaraynja gengu í hjónaband. Fréttamenn spurðu Dmitry Peskov, talsmann rússnesku stjórnarinnar, í dag um afstöðu stjórnvalda til brúðkaupsins. Hann sagði að Kremlverjar óskuðu að sjálfsögðu öllum brúðhjónum gæfu og gengis, en Pútín forseti ætlaði ekki að senda neinar árnaðaróskir.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV