Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Forstjóri Play: „Þetta eru bara órökstuddar dylgjur“

01.10.2021 - 16:48
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Birgir Jónsson, forstjóri Play, gefur lítið fyrir gagnrýni Drífu Snædal, forseta ASÍ, á framgöngu flugfélagsins gagnvart starfsfólki. Hann segir hana fara með órökstuddar dylgjur og hvetur hana til að birta gögn máli sínu til stuðnings.

Drífa Snædal sagði fyrr í dag að starfsfólk Play hefði ítrekað leitað til ASÍ og kvartað undan slæmum aðbúnaði starfsfólks hjá flugfélaginu. Þótt starfsfólkið ætti ekki aðild að stéttarfélagi innan ASÍ hefðu samtökin átt trúnaðarsamtöl við það. Drífa hefur gagnrýnt Play fyrir að hafa gert samning við Íslenska flugstéttarfélagið, sem ASÍ skilgreinir sem gult stéttarfélag sem ekki er óháð fyrirtækinu sjálfu. Hún segir framgöngu Play aðför að launafólki á öllum vinnumarkaði.

Segir ásakanir ASÍ tilhæfulausar

Birgir segir ásakanir ASÍ með öllu tilhæfulausar. „Mér finnst þetta bara órökstuddar dylgjur. Það hefur enginn leitað til okkar eða að mér vitandi til stéttarfélags þessa starfsfólks sem um ræðir. Við höfum fullkomlega löglegan kjarasamning og hann stenst alla skoðun. ASÍ og Flugfreyjufélagið hafa reynt lagalegar leiðir til að koma áfram þessum málstað sínum, en það hefur ekki gengið, enda stenst þetta allt skoðun,“ segir hann. 

„Þetta er hagsmunagæsla fyrir Flugfreyjufélagið,“ bætir hann við og bendir á að í kjarasamningi félagsins við Flugstéttarfélagið sé forgangsréttarákvæði og því sé félaginu óheimilt að ráða starfsfólk frá öðrum stéttarfélögum. „Við erum ekki í neinu samningssambandi við Flugfreyjufélagið og getum þess vegna ekki mætt á neina fundi eða neitt slíkt,“ segir hann. 

Skorar á Drífu að birta upplýsingar

Drífa sagði einnig fyrr í dag að það væri ekki rétt, sem stjórnendur Play héldu fram, að það hefði verið að frumkvæði starfsfólksins sjálfs að biðja flugliða um að minnka starfshlutfall sitt niður í hálft starf, gegn því að fá fastráðningu. Sú beiðni hefði þvert á móti komið frá stjórnendum. 

Hvernig var þetta?

„Ég bara skora á Drífu, fyrst hún er með svona miklar upplýsingar og erindi frá fólki, að birta bara þessar upplýsingar. Því þetta stemmir engan veginn við það sem við erum að tala við okkar starfsfólk um eða það sem þetta stéttarfélag sem við erum í samningssambandi við heldur. Þannig að í staðinn fyrir að vera með nafnlausar ávirðingar þá skora ég á Drífu að birta þetta,“ svarar Birgir.