Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landsréttur sneri í dag dómi Héraðsdóms Suðurlands og dæmdi mann í fimm ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Maðurinn er sakfelldur fyrir að stinga konu í kviðinn með hnífi, sem hefði geta valdið valdið lífshættu. Í dómnum segir að „með því að veita stunguáverka í kviðarholi með hnífi hafi honum ekki geta dulist að langlíklegasta afleiðing af háttsemi hans yrði bani“.

Maðurinn hafði þann 10. nóvember 2020 verið sýknaður í Héraðsdómi Suðurlands, en Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar sem sakfelldi manninn í dag. Árásin átti sér stað í Þorlákshöfn fyrir um þremur árum síðan.

Sagði konuna hafa stungið sig sjálfa í kviðinn

Konan hlaut 5 cm djúpt stungu sár á kvið og kemur fram í dómnum sárið hafi legið nálægt stórum æðum í nára. Maðurinn sagði fyrir dómi að konan hefði sjálf veitt sér áverkana.

Héraðsdómur hafði áður sagt frásögn konunnar óheildstæða og hún hafi greinilega verið undir miklum áfengisáhrifum. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi hún rifjað upp óljósar minningar um rifrildi milli hennar og ákærða, sem þá voru kærustupar. Hún hafi hins vegar munað eftir að liggja eða sitja í svefnsófa þar sem ákærði réðist að henni og stakk með hnífi.

Einnig kom fram í dómi héraðsdóms að miðað við blóð á vettvangi teljist ólíklegt að konan hafi sjálf falið hnífinn og sett blóðugt viskastykki í hornskáp í eldhúsi. Maðurinn var þrátt fyrir þetta sýknaður í héraðsdómi og var sagt að mikill vafi léki á sekt mannsins, vegna áfengisdrykkju þeirra beggja sem væru ein frásagnar af atburðinum. Þá hefði ekki verið hægt að útiloka að konan hefði sjálf veitt sér áverkann.

Ákærða hefur nú verið gert að sæta fimm ára fangelsi, að frátöldum tíma sem hann sat í gæsluvarðhaldi. Hann greiði einnig allar sakarkostnað málsins eða 3.344.013 krónur.