Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Bréf í sjávarútvegsfyrirtækjum rjúka upp

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Stefánsson
Hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtækjum hafa rokið upp í kauphöllinni í morgun í kjölfar tillögu Hafrannsóknarstofnunar um að loðnukvóti næsta fiskveiðiárs verði 904.200 tonn.

Um klukkan 10 í morgun, klukkustund eftir tillögu Hafró, höfðu bréf í útgerðarfélaginu Brimi hækkað um 10,61% í Kauphölinni og Síldarvinnslunni um 9,40%. 

Tillagan markar endalok loðnubrests sem hefur staðið frá árinu 2019 með tilheyrandi tekjutapi fyrir sjávarútvegsfyrirtæki, starfsfólk, sveitarfélög og ríkissjóð. Enginn loðnukvóti var gefinn út veturinn 2019-2020, og síðasta vetur var veiði með minnsta móti eða tæp 129 þúsund tonn.

Ef farið verður að ráðleggingum Hafró fyrir næsta vetur, 904.200 tonn, verður aflinn hins vegar sá mesti frá árinu 2003.

Loðna hefur verið veidd á íslenskum miðum frá árinu 1963, ef frá er talinn veturinn 2019-2020. Útflutningsverðmæti hennar nam 18 milljörðum króna árið 2018.