Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bankarnir búa sig undir stýrivaxtahækkun

01.10.2021 - 10:33
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - RÚV
Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,25 prósenta stýrivaxtahækkun í október. Greiningardeild Íslandsbanka spáði sömu hækkun í gær.

Hækkunin yrði sú þriðja í röð en Seðlabankinn hækkaði vexti um 0,25 prósent í maí og aftur í ágúst. Í fundargerð vegna síðustu ákvörðunar peningastefnunefndar kom fram að einhugur hefði verið um að hækka stýrivexti og að tveir nefndarmenn hefðu frekar kosið 0,5 prósentustiga hækkun, en fallist á tillögu Seðlabankastjóra um 0,25 prósentustiga hækkun.

Helstu rök nefndarinnar fyrir vaxtahækkun hafa snúið að því að verðbólga hafi reynst þrálátari en vænst var og hún gæti leitt til hærri verðbólguvæntinga. Innlend eftirspurn hafi tekið kröftuglega við sér og batinn á vinnumarkaði skjótari en búist var við. Þá sé betra að hækka vextina smám saman heldur en að hækka þá í stórum skrefum síðar.