Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Andri kominn í þægilega innivinnu í Ófærð 3

Mynd með færslu
 Mynd: RVK studios

Andri kominn í þægilega innivinnu í Ófærð 3

01.10.2021 - 10:26

Höfundar

Ný þáttaröð af Ófærð hefur göngu sína á RÚV sunnudagskvöldið 17. október. Sjáðu stikluna hér.

Lögregluteymið Andri Ólafsson (Ólafur Darri Ólafsson) og Hinrika (Ilmur Kristjánsdóttir) taka höndum saman að nýju við rannsókn á flóknu morðmáli í samstarfi við Trausta, yfirmann Andra (Björn Hlynur Haraldsson).   

Eftir átakamikla atburði, sem gengið hafa nærri honum, hefur Andri nú fært sig um set innan lögreglunnar og farinn að sinna rannsókn efnahagsbrota. Sestur við skrifborð og telur sig kominn í þægilega innivinnu.        

En þegar ungur maður finnst myrtur í hópi sértrúarsafnaðar norður í landi, finnur Andri sig knúinn til að leggja rannsókninni lið.  Hinn látni reynist maður, sem Andri hafði afskipti af 8 árum áður og sem hann hafði fyrir rangri sök í mannhvarfsmáli, misst stjórn á sér og gengið illþyrmilega í skrokk á honum.

Allar götur síðan hefur hefur atvikið legið á honum eins og mara og nú finnst honum hann skuldbundinn til að bæta fyrir gjörðir sínar með því að koma morðingjanum bak við lás og slá.  Ekki aðeins vegna fórnarlambsins og fjölskyldunnar, heldur einnig í von um að særa burt sína eigin drauga.

Ófærð er sem fyrr framleidd af RVK Studios.  Baltasar Kormákur er aðalframleiðandi þáttanna.  Leikstjórar ásamt honum eru þau Börkur Sigþórsson og Katrín Björgvinsdóttir. 

Óhætt er að segja að teflt sé fram stórskotaliði úr íslensku leikarastéttinni og leikhópurinn er stór.  Í stærri hlutverkum má nefna Egil Ólafsson, Margréti Vilhjálmsdóttur, Harald Ara Stefánsson, Írisi Tönju Flygenring, Guðjón Pedersen og Þorstein Gunnarsson, sem á nú endurkomu, en Þorsteinn fór á kostum sem tengdafaðir Andra í fyrstu þáttaröðinni.   

Danski stórleikarinn Thomas Bo Larsen, leikur einnig stórt hlutverk í þáttunum, sem forsprakki dansks mótorhjólagengis, sem kemur til landsins með Norrænu og skapar ótta meðal bæjarbúa. 

Þættirnir eru framleiddir í  samstarfi við RÚV, ZDF Entertainment og Netflix með stuðningi frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

 

Tengdar fréttir

Sveitarfélög

Baltasar bætir við sig kvikmyndaveri í Gufunesi

Þriðja serían af Ófærð líklega sú síðasta

Sjónvarp

Ófærð 3: Sambland af vestra og Íslendingasögum