Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

39 sagt upp hjá stóru viðskiptabönkunum þremur

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Stóru viðskiptabankarnir þrír, Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, sögðu upp 39 starfsmönnum í liðnum mánuði.

Viðskiptablaðið greinir frá því að níu manns hafi verið sagt upp hjá Landsbankanum á miðvikudag. Þeir störfuðu ýmist í útibúum bankans eða höfuðstöðvum, flestir á höfuðborgarsvæðinu. Þá var sex starfsmönnum sagt upp hjá Arion banka í vikunni.

Greint var frá því um miðjan síðasta mánuð að starfsmönnum Íslandsbanka hefði fækkað um 24. Um helmingi þess hóps var beinlínis sagt upp en samið var við aðra um snemmbúin starfslok.

Dregið úr persónulegri þjónustu

Viðskiptabankarnir þrír hafa jafnt og þétt dregið úr mannaflsfrekri þjónustu á liðnum árum og í auknum mæli fært þjónustu yfir á netið.

Landsbankinn greindi frá því á miðvikudag, sama dag og starfsmönnum var tilkynnt um uppsagnirnar, að útibú bankans verði frá og með miðjum mánuði opin frá klukkan 10-16, en ekki 9-16 eins og verið hefur um árabil.

Þess í stað verður símatími bankans lengdur til klukkan 18 virka daga og svokölluðum „sjálfsafgreiðslutækjum“ fjölgað, en það eru hraðbankar sem bjóða upp á meiri þjónustu en hinir hefðbundnu, svo sem innlagnir.

Bankaútibúum fækkað um helming á 14 árum

Bankaútibú voru um 150 árið 2007 en hefur fækkað um helming síðan.

Nú eru útibú bankanna þriggja 65, þar af 14 á höfuðborgarsvæðinu. Flest eru útibúin hjá Landsbankanum, 38 talsins, en tólf hjá Íslandsbanka og fimtán hjá Arion banka.

Þá halda sparisjóðirnir fjórir, Sparisjóður Austurlandss, Suður-Þingeyinga, Strandamanna og Höfðhverfinga, úti átta útibúum á Norður- og Austurlandi.