Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skjálftavirkni eykst á Reykjanesi og Vísindaráð fundar

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Jarðskjálfti af stærðinni 3,7 fannst á höfuðborgarsvæðinu og upp í Borgarnes rétt fyrir klukkan tvö í nótt. Uppruni skjálftans er milli Keilis og Litla Hrúts á Reykjanesi. Skjálftavirkni eykst á svæðinu en engin merki eru um óróa. Vísindaráð Almannavarna kemur saman síðdegis í dag þar sem farið verður yfir stöðuna á Reykjanesi og við Öskju.

„Það var skjálfti klukkan 01:52 í nótt 0,8 km suðvestur af Keili. Þetta er á sama svæði og hrina er búin að vera síðan á mánudaginn,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Frá miðnætti hafa mælst um 400 skjálftar, flestir mjög litlir og í gær mældust um 700 skjálftar, sá stærsti var 3,5 að stærð og nokkrir voru af stærðinni nærri 3.

Er skjálftavirkni að aukast á svæðinu? „ Já, það má segja það. Allavegana síðasta sólarhringinn er þetta búið að aukast þarna. Og líka stærð skjálftanna eins og við fundum fyrir í nótt. En það eru engin merki um óróa, það sést ekkert á vefmyndavélum að eitthvað óeðlilegt sé í gangi.“

Veðurstofu hafa þegar borist um 80 tilkynningar víðs vegar frá á suðvesturhorninu og alla leið upp í Borgarnes frá fólki sem varð skjálftans vart. Von er á INSAR-gervitunglamyndum og vonast er til að þær varpi betra ljósi á það sem er að gerast á svæðinu. Eftir að lesið hefur verið úr myndunum mun Vísindaráð Almannavarna funda.

„Þar verður farið yfir stöðuna í Geldingadölum, Fagradalsfjalli og upp að Keili og hvað er að gerast þar í þessari hrinu. Og svo verður líka farið yfir stöðuna í Öskju,“ segir Bjarki, en Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur sagði í fréttum RÚV í gær að möguleiki væri á gosi í Öskju.

Skjálftavirknin við Keili er við kvikuganginn sem höfðu myndast á Reykjanesi áður en gosið hófst í Geldingadölum. „Og það er bara spurning um hvort gosið sé að finna sér aðra leið upp eða hvort þetta sé skjálftavirkni við flekaskil. Það verður bara að koma í ljós næstu daga hvað er að gerast og þessar INSAR- myndir geta hjálpað okkur við að túlka hvað er að gerast þarna,“ segir Bjarki.