Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mál Arons Einars til rannsóknar hjá lögreglu að nýju

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Mál Arons Einars til rannsóknar hjá lögreglu að nýju

30.09.2021 - 21:52
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók fyrir skömmu upp að nýju rannsókn á meintu ofbeldisbroti landsliðsfyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar sem ekki var valinn í íslenska landsliðshópinn í dag. Aron sagði í yfirlýsingu að ástæða þess að hann væri ekki í landsliðshópnum hlyti að vera sögusagnir um atburð í Kaupmannahöfn árið 2010 en þvertók fyrir að hafa brotið gegn neinum

Aron sagði í yfirlýsingu til fjölmiðla að hann ætlaði að óska eftir að fá að gefa skýrslu hjá lögreglu um þetta kvöld fyrir ellefu árum. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu var lögð fram kæra vegna þessa máls á sínum tíma en hún svo dregin til baka. Brotaþoli óskaði nýverið eftir því að rannsóknin yrði tekin upp að nýju, samkvæmt heimildum fréttastofu, og var það gert.

Ekki náðist í yfirmann kynferðisbrotadeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Í yfirlýsingu sinni til fjölmiðla í kvöld skoraði Aron á þá sem hefðu eitthvað út á hann að setja að hlífa sér ekki, ásaka frekar og nafngreina og gefa honum kost á að verja sig.

Hann sagðist aldrei hafa gerst brotlegur gagnvart neinum eða neinni.  Í yfirlýsingunni kom einnig fram að lögreglan hefði aldrei haft samband við hann vegna nokkurs máls. „Ég hef engar tilkynningar fengið um að ég hafi á einhverjum tímapunkti verið undir grun og aldrei verið boðaður í yfirheyrslu.“

Aron sagðist einnig aðeins getað dregið þá ályktun að komandi sjálfkjörin stjórn KSÍ hefði beitt sér fyrir því að honum hefði verið slaufað, eins og komið hefði fram í frétt DV.  Bæði Gísli Gíslason, varaformaður KSÍ, og Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, hafa vísað því á bug í dag.

Fréttin hefur verið leiðrétt.

Tengdar fréttir

Aron Einar vill fá að gefa skýrslu hjá lögreglu

Fótbolti

Enginn Aron Einar í landsliðshópnum