Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Jarðskjálfti af stærðinni 3,7 á Keilissvæðinu

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Stuttur en snarpur jarðskjálfti sem mælist af stærðinni 3,7 fannst mjög greinilega á Suðvesturhorninu og í Borgarnesi skömmu fyrir klukkan tvö. Um 700 skjálftar hafa mælst undanfarinn sólarhring.

Uppruni skjálftans er milli Keilis og Litla Hrúts á Reykjanesi að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Skjálftavirkni heldur áfram á svæðinu milli Keilis og Litla Hrúts í þeirri hrinu sem hófst á mánudag. Að sögn Bjarka hafa mælst um sjöhundruð skjálftar síðasta sólarhringinn og um 200 frá miðnætti í nótt.

Klukkan rúmlega ellefu í morgun mældist skjálfti 3,5 að stærð og nokkrir af stærðinni nærri þrír í dag.  Skjálftar eru á um sex til sjö kílómetra dýpi en engin merki eru um óróa.

Vel er fylgst með vefmyndavélum og gerfihnattamyndir væntanlegar í nótt sem skoðaðar verða nánar á morgun. 

Fréttin var uppfærð klukkan 2:30 með uppfærðri stærðartölu frá Veðurstofu Íslands.