Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Gagnrýnir skipulagsleysi á húsnæðismarkaði

30.09.2021 - 15:26
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, segir að nálgast þurfi húsnæðismarkaðinn með skipulagðari hætti. Hann segir Íslendinga eiga mjög erfitt með að horfa á heildarmyndina og meta heildarhagsmuni.

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands ákvað í gær að setja reglur um hámark greiðslubyrðar fasteignalána. Reglurnar kveða á um að greiðslubyrðarhlutfall fasteignalána takmarkist almennt við 35 prósent og 40 prósent fyrir fyrstu kaupendur.

„Þetta er til að tryggja það í fyrsta lagi að fólk sé ekki að taka of mikla fjárhagslega áhættu þegar það er að kaupa eignir og í öðru lagi að tryggja það að lánveitendur fari ekki í einhverja samkeppni sín á milli hver getur lánað meira með minni kröfum. Það var það sem gerðist á árunum fyrir hrun,“ sagði Ásgeir í fréttaskýringaþættinum Hádeginu.

Sérfræðingar segja hættumerki séu á lofti á fasteignamarkaði um þessar mundir. Ásgeir segir að Seðlabankinn sé að bregðast snemma við stöðunni. „Ef við spornum ekki við getur þetta farið út í ógöngur á þessum vetri,“ segir hann.

„Mér finnst - þó Seðlabankinn eigi ekki að hafa skoðun á því - að sú húsnæðisstefna sem byggir á því að láta fólk hafa ógeðslega mikið af lánum til að kaupa sér eignir sé ekki góð stefna og ég held að það sé ekki gott fyrir tekjulágt fólk að ætla að fara yfir 40 prósent af ráðstöfunartekjum,“ segir Ásgeir.

Hann segir að talsverður framboðsskortur hafi myndast á fasteignamarkaði. „Það er að einhverju leyti vandræði hvernig skipulagsmál eru á Íslandi, að það skuli ekki vera gerðar áætlanir fram í tímann um framboð á húsnæði í ljósi þess hvaða fólk er að koma inn á markaðinn,“ segir Ásgeir.

„Að lokum er það þannig að þú ert með fólk sem þarf íbúðir. Ein fjölskylda þarf eina íbúð og þetta er ekkert svakalega flókið. Ef við myndum einhvern veginn hugsa betur um það hvernig við getum látið framboðið stemma við eftirspurnina þá þyrftum við í Seðlabankanum ekki að standa í þessum æfingum,“ segir hann.

Ásgeir segir að þeir sem eigi hlut að máli verði að horfa á heildarmyndina. „Íslendingar sem þjóð eiga mjög erfitt með að horfa á heildarmyndina og það er bara okkar eðli að einhverju leyti. Heildarmynd og heildarhagsmunir er ekki eitthvað sem við eigum auðvelt með að eiga við. Það er bara hver hugsar frá sínu sjónarhorni alltaf,“ segir hann.